Kosningar

Núna er Alþingi að ljúka störfum og kosningar framundan. Við Íslendingar höfum búið við framfaraskeið í 12 ár með sömu ríkisstjórn og miklum breytingum. Breytingarnar hafa meðal annars falist í sölu ríkisfyrirtækja, auknum alþjóðlegum áhrifum og minnkandi áhrifum pólitíkusa og margt miklu fleira.
Núna auglýsa bankar eftir lántakendum, áður áttu menn bankastjóra og hnésterkustu mennirnir eða vinabestu fengu stærstu lánin og græddu mest því verðbólgan borgaði þau.
Fyrr þurfti að fá leyfi til fjárfestinga hjá viðskiptaskrifstofu hjá einum manni í viðskiptaráðuneytinu fyrir gjaldeyri, annar gjaldeyrir var skammtaður eða með skemmtanaskatti eða hvað hann nú hét 15% aukalega. En í dag lesum við af fjárfestingum Íslendinga í erlendum blöðum.

Hvað hefur gerst.
Í dag er það einstaklingurinn sem tekur ákvarðanir fyrir sjálfan sig en ekki 63 sérvaldir snillingar sem veljast eftir loforðum á minn og þinn kostnað og þurfa ekkert sérstaklega að standa við þau. Hagvöxturinn hefur aukist og kemur t.d. frá einstaklingum sem fjárfestu í bjórverksmiðju í útlöndum, keyptu banka og fjárfestu svo í hinu og þessu hér á landi og annarsstaðar og borga í skatt núna á hverju ári nærri meir en bankinn var seldur á.
Ef þú ert með bríllíant hugmynd þá getur þú talað við einhvern snilling sem er í þessum bönkum og hann reddar þér pí grilljónum ef hugmyndin virkar. þú þarft ekki að tala við Steingrím J., Ögmund, Ingibjörgu, Adda K eða einhvern afdankaðan ríkisstarfsmann til að fá gjaldeyrisleyfi. þú talar bara við bankann þinn. Svo græðir þú og bankinn á öllu saman og borgar svo skatt hér á landi.
Aftur á móti geturðu breytt þessu kerfi aftur ef þú vilt ágæti kjósandi. Ef þú vilt breyta til og hætta áherslum á svona fyrirbæri einsog hagvöxt, gróða og útrás þá hefurðu valið. þú getur td. kosið vinstrimennina. þeir vilja skoða stöðuna og hugsa fyrir þig (S) eða þeir sem vilja hætta og segja stopp (VG) og þurfa ekkert að segja meir. Svo er þriðji flokkurinn sem segir bara kvótinn, kvótinn. Við finnum leið. (F).
Staðreyndin er að við búum við velmegun, lúxus sem er einsdæmi meðal ríkja á þessari jarðkringlu og höldum að þetta allt saman sé sjálfgefið, en það er það alls ekki. Ef við t.d. hækkum fjármagnstekjuskattinn um helming fara fyrirtækin úr landi og í land sem eru með lægri skatt á fjármagnstekjur. Engin gróðafyrirtæki eftir, allir farnir einsog blaðra sem springur í afmæli og gestirnir fara.


mbl.is Enn stefnt að því að ljúka þingi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Ekki ætla ég að halda því fram að einkavæðing sé ekki mjög oft af hinu góða, og hafi ekki gert undraverða hluti fyrir íslenska hagkerfið, ég ætla hinsvegar að leyfa mér að efast um að fram að upphafi núverandi ríkisstjórnar (1995?) hafi allir þurft að sækja um leyfi til gjaldeyriskaupa?

Ég sé heldur ekki að t.d. samfylkingin sé á móti einkavæðingu þar sem hún á við, ef litið er á sögu r-listans, þar sem samfylkingin spilaði stóran þátt í stefnumótun. Eða þar af leiðandi að samfylkingin ætti eftir að glata þeim ávinningi sem hefur orðið í hagstýringu.

Ég held að áherslur hvers þeirra sem kemst til valda eftir næstu kosningar ættu að vera tvær, annars vegar að minnka það gríðarlega bil sem hefur myndast á milli þeirra lægst, og hæst launuðu. Það er dýrt að lifa á Íslandi, og annaðhvort þarf að lækka grunnframfærslukostnað, eða lækka skatta enn frekar á þá lægst launuðu. Til þess að berjast gegn þessu þarf sterka efnahagsstjórn, og verðbólga síðast liðin ár, sama hvað hverjir segja, hefur alls ekki verið ásættanleg -- hún er margfalt meiri en annars staðar í evrópu, þar sem hagvöxtur hefur nú einnig látið á sér kræla. Fyrir 12 árum síðan, kostaði hálfs líters dós af coca cola, á bilinu 60-75 krónur í næstu sjoppu. Í dag kostar hún aldrei minna en tvöfalt það. Neysluvísitalan og verðtrygging lána hefur auðvitað mikið með þessa verðbólgu að gera. Lánabyrðin mín t.d. hækkaði á innan við 3 árum (mars 2004 - október 2006) um 17.5% útaf henni.

Hitt vandamálið, sem af umræðu þjóðarinnar undanfarið, sérstaklega í ljósi t.d. Draumalandsins, og herferðar Ómars Ragnarssonar, virðist vera umhverfismál. Skynsamleg nýting á raforku og þess háttar.

Mér finnst afar stór tilviljun sem fáir hafa bent á, að einn liður í því að minnka þessa þenslu sem er stór ástæða að baki vandamáli númer 1, þarf auðvitað að salta öll frekari plön um stóriðju. Önnur leið auðvitað til að ráðast á þau vandamál sem stóriðjan á að leysa, atvinnuleysi á landsbyggðinni, væri auðvitað að leggja niður kvótakerfið, og færa kvótann aftur út á land.

Ég ætla að vitna í einn af virtari hagfræðingum íhaldsmanna í bandaríkjunum, því þessi orð hans eiga vel við um ástand Íslands, sem og hins vestræna heims sem þau voru ætluð;

Much of the social history of the Western world over the past three decades has involved replacing what worked with what sounded good. -- Thomas Sowell

Þó svo ég sé alls ekki sammála þessum manni í einu og öllu, held ég að þetta séu orð sem við þurfum að hafa í huga þegar við lærum af, og leiðréttum, mistök fortíðarinnar, og forðumst að gera fleiri mistök í framtíðinni.

Vinstriflokkarnir geta tekið sér þessi orð til umhugsunar varðandi hagstýringu, og þeir hægri varðandi einkavæðingu -- viljum við afnema þátt ríkisins í heilbrigiðsþjónustu t.d.? Viljum við ekki hafa öfluga löggjöf um tryggingafélög? Lærum af reynslu t.d. Bandaríkjanna, en gerum ekki sömu mistök. Tannlækna aftur í skólana, takk, osfrv ;-) 

Ég hljóp kannski aðeins um víðan völl, en það er ekki annað hægt stundum, núna er tíminn til að hætta að hugsa flokksbundið, og hugsa rökrétt um hvernig framtíð við viljum á Íslandi! 

Steinn E. Sigurðarson, 18.3.2007 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband