Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Binni og Þjóðareignin

Ég var að lesa kafla Siggeirs Brynjars Kristgeirssonar (Binni) "Sjávarútvegur, eignarréttur og óviss framtíð" í bókinni Þ J Ó Ð A R E I G N sem Bókafélagið Ugla í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð við samfélags- og efnahagsmál (RSE) var að gefa út.

Kaflinn ákaflega merkilegur fyrir margra hluta sakir. Þar kemur fram að markaðsvirði eiginfjár Sjávarútvegsfyrirtækja væri ekkert ef auðlindagjald væri 5,60 kr á þorskígildiskíló.

Einnig sýnir Binni framá að verðmæti eins sjávarútvegsfyrirtækis Bakkavarar er meira en allra sjávarútvegsfyrirtækja í úttektinni í dag. Það skal tekið fram að þegar hlutabréfamarkaðurinn var stofnaður voru það sjávarútvegsfyrirtæki sem riðu á vaðið og byggðu upp hlutabréfamarkaðinn. Í upphafi hlutabréfamarkaðsins var verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaðnum meiri en allra bankanna.

Kaflinn er ákaflega holl lesning öllum þeim ráðskast með sjávarútveginn og slá sig til riddara á þeim vettvangi.

Mín skoðun hefur alla tíð verið sú að ábyrg fiskveiðistefna með aflamarkskerfinu er það fyrirkomulag sem tryggir best vöxt og viðgang sjávarútvegssins. Aflamarkskerfið er eina raunhæfa leiðin til þess að byggja upp þorskstofna við Ísland. En uppbygging þorskstofna er það sem gefur fyrirtækjum og þjóð langbestu ávöxtun til lengri tíma.

Sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið stöðugt undir hælnum á duttlungum Alþingis og stjórnmálaflokkar stofnaðir sérstaklega til þess eins að breyta öllum leikreglum fyrirtækjanna. Stjórnmálamenn hafa boðað sátt og reglum hefur verið breytt, án nokkurs árangurs.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa reynt að leita sátta og látið yfir sig ganga margháttaðar breytingar á aflamarkskerfinu til þess eins að tryggja rekraröryggi fyrirtækjanna og ná ábyrgri stýringu veiðistofna svo hægt verði að byggja þá upp.
Þetta hefur ekki tekist. Sjávarútvegsfyrirtæki eru skattpínd með auðlindaskatti sem er sértækur skattur sem engin önnur atvinnugrein þarf að greiða. Yfir þeim vofir stöðug hótun um að öllu verði breytt í næstu kosningum.
Aftur á móti þeir aðilar sem vinna í öðrum atvinnugreinum hvort sem er í bönkum eða nýlenduvöruverslunum geta frjálsir um höfuð strokið og leita leiða til að efla sín fyrirtæki hérlendis sem erlendis í opnum markaði og í frjálsri samkeppni þar sem almennar leikreglur gilda.
Sjávarútvegsfyrirtæki reyna með ábyrgum hætti að verja aflamarkskerfið þó það sé þeirra helsta haft.
Það væri fróðlegt að vita hver staða sjávarútvegssins væri ef kraftar manna hefðu farið í að eflast í stað þess að verjast. Staðreyndin er að vörnin hefur brugðist og sjávarútvegsfyrirtæki eru undir í áróðursstríðinu. Ég hef ekki heyrt í neinum þingmanni sem berst fyrir því að sjávarútvegurinn eigi að fá að eflast og um hann skuli vera sömu leikreglur og aðra atvinnugreinar.
Núna á að koma auðlindarákvæðinu inn í stjórnarskránna, þrátt fyrir að það sé marklaust ákvæði. Það ætti frekar að breyta lögunum (nr. 38/1990 ) um stjórn fiskveiða og fella ákvæðið út.

Að lokum, úr kaflanum:

"Í raun geta stjórnvöld gert atvinnugrein verðlausa með þrennu móti:

-> beinni eignaupptöku, svo sem Þjóðnýtingu eigna, eða þeirra eigna sem atvinnugreinin byggist á (ríkisvaldið gæti, svo dæmi sé tekið, þjóðnýtt framleiðslutæki á borð við skip og sjálfar auðlindir sjávarins sömuleiðis).
-> skattlagningu sem ofbýður greiðslugetu fyrirtækjanna,
-> lögum og reglum sem þrengja svo mjög að starfseminni að arðsemi hennar verði lítil sem engin. " .


Vestfjarðavandinn!

Eftir fréttir síðustu daga af Vestfjarðavandanum fallast manni hendur. Enn og aftur kemur roka að vestan sem segir að núna verði aðrir að koma með lausnir og peninga.
Það eigi bara að gefa aftur og byrja uppá nýtt. Ég bara spyr myndi það breyta einhverju. Ég held ekki.
Þar sem ég þekkti töluvert til rekstrar fyrirtækis á svæðinu langar mig að taka saman nokkrar staðreyndir um svæðið.

Á svæðinu býr harðduglegt fólk.
Gjöful fiskimið eru útaf Vestfjörðum.
Mikil sérþekking er á svæðinu á sjávarútvegi og tengdum greinum.
Allir bæirnir utan einn eru fámennir og afskekktir.
Meirihluti vinnuafls er erlendur og erfitt að fá fólk til vinnu í sjávarútvegi.
Kvótinn var að stærstum hluta seldur af svæðinu vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækja.
Aðföng eru dýr og flutningskostnaður mikill. Einnig getur verið ótryggt að fá aðföng.
Meirihluti Vestfirðinga myndi flytja af svæðinu gætu þeir selt eignirnar sínar.
Meirihluti brottfluttra Ísfirðinga segir að kvótakerfið sé ekki ástæða þess að það flutti í burtu.
Þjónusta, menntunartækifæri og atvinnutækifæri er of takmörkuð og kostnaðarsöm.

Málið er að sama ástand er víðar á landinu, einsog á Norð-Austur horninu og á öðrum einstökum stöðum. Það þýðir ekkert að koma með enn eina Vestfjarðaaðstoðina. Það gerir ekkert annað en að skemma möguleika fólks á að bjarga sér sjálft. Vestfirðingar verða sjálfir að koma með lausn á vandamálinu.


Hagvöxtur, kaupmáttur, skattar og lýðræði.

Við félagarnir mælum núna árangurinn í þjóðfélaginu á okkur sjálfum. Einu sinni á ári þegar við hittumst leggjum við spilin á borðið og reiknum út hagvöxtinn í hópnum og förum yfir reglur vinahópssins.
Þetta höfum við gert frá því við útskrifuðumst og höfum haldið þá reglu að hittast til að borða saman. Í upphafi var ákveðið að allir borguðu jafnt. 5.000,- kr fyrir matinn en það var verðið fyrir hamborgaramáltíð með frönskum. Það eru núna 50 ISK. eftir gjaldmiðlabreytinguna.
Nú það er að frétta af okkur að einn í hópnum bætti við sig vinnu og tvöfaldaðist í tekjum. Annar fór á hausinn með fyrirtækið sitt eftir að rúmenar undirbuðu hann. Sá þriðji fékk vinnu í KRbanka og er á prósentum. Aðrir hafa ekki hreyft sig í vinnu á milli ára.
Sá atvinnulausi og sá duglegi jafna hvorn annan út en KRbankamaðurinn eykur hagvöxtinn töluvert í hópnum. En hann er á jafn miklu kaupi og við allir hinir til samans.
Við komumst að þeirri niðurstöðu að kaupmáttur hefur aukist mikið í hópnum, atvinnuleysi reyndar eitthvað en það er viðráðanlegt. Samneyslan hefur þó aukist mest þar sem veislurnar eru helvíti flottar miðað við hamborgarann sem var í fyrstu veislunni, enda ekki nema von í öllu þessu góðæri. Núna getum við veitt okkur það flottasta sem er á matseðlinu. Feitar steikur með rándýrum vínum og koníaki sem engin man hvað heitir enda flestir fullir í veislunni.
Nú svo er komið að reikningnum. Allir borga auðvitað jafnt einsog við gerðum í upphafi eða 50 kr. Sá duglegi í tvöfaldi vinnu borgar reikninginn fyrir þann atvinnulausa en KRbankamaðurinn borgar jafnt á móti okkur hinum eða helminginn af reikningnum.
Atkvæðagreiðslan um fyrirkomulag næsta árs gengur greiðlega fyrir sig. Allir nema einn eru sammála um að breyta fyrirkomulagi næsta árs. Reyndar finnst honum ekki eins skemmtilegt og okkur hinum og eitthvað að pípa um flytja. Við trúum ekki að hann geri það því hér er svo gott að vera. Hvergi meiri hagvöxtur, atvinnuleysi lítið og samtrygging góð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband