Færsluflokkur: Bloggar
Hinir óseðjandi!
23.4.2021 | 14:06
Vinur minn Anfinn í tröllahöndum
Síðasta vetrardag, sá ég minn gamla vin Anfinn Olsen birtast í sjónvarpinu hér heima. Eins og hann kom fyrir í sjónvarpinu þekki ég ekki minn mann. Hann var frekar utan við sig og tafsaði í svörum, eitthvað sem er ólíkt honum. Sá Anfinn sem ég þekki er skarpur og snar en þegir ef hann hefur ekkert til málanna að leggja. Þar mættu margir af honum læra. Að fyrra bragði trúir hann því besta um fólk og telur alla vinna af heilindum, en ef menn sýna annað verður hann reiður. Þegar ég kvaddi Anfinn og Elísabetu konu hans í Tromsö árið 1986 voru þau með seiðaeldi á prjónunum í Færeyjum. Síðar æxluðust mál þannig að þau tóku við útgerð föður Anfinns. Hafa þau byggt upp mikið og glæsilegt útgerðarfyrirtæki í Færeyjum af miklum dugnaði og nýtt sér tengingar hér á landi við menn og fyrirtæki sem og annars staðar. Elísabet var við nám hér á landi áður en hún fór til Tromsö. Hafa þau ræktað vel sinn vinskap við Íslendinga. Þau hjón, Elísabet og Anfinn, eru fyrirmyndar fólk sem geisla af góðmennsku og lífsgleði.
Eitt sinn man ég eftir að hafa sagt þeim hjónum frá því að Íslendingar gerðu grín að Færeyingum og kölluðu þá tafsara. Thad er allt í lagi sagði Færeyingurinn, við köllum ykkur jáara. En svo segið þið flugvél og það er í fínu lagi en þið segið líka stígvél, en hvar er vélin?
Samherjaleikurinn berst til Færeyja
Síðasta vetrardag sýndi Ríkisútvarpið færeyskan þátt sem gefið var nafnið Hinir óseðjandi. Hverjir voru óseðjandi og um hvað fjallaði þátturinn er erfitt að segja. Markmiðið var klárt, að láta áhorfendur sitja uppi með þá tilfinningu að eitthvað verulega spillt og rotið sé í rekstri Samherja og Framherja í Færeyjum. Kunnulegt stef þegar Ríkisútvarpið fjallar um sjávarútveg.
Í þessum þætti sáum við mörg myndbrot klippt fram og til baka úr myndasafni Kveiks með undirspili eins og um glæpaþátt væri að ræða. Þarna voru Kveiksmenn, sérskipaðir rannsakendur, að lesa í færslur reikninga sem þeir komumst yfir en vissu greinilega ekki mikið um. Enda höfðu þeir lítið haft fyrir því að kynna sér rekstur fyrirtækjanna eða hvað menn væru að gera þar. Þeir ætluðu sér að finna eitthvað allt annað.
Það var einfaldlega verið að leita að lögbroti enda virðast þeir sannfærðir um að útgerðarmenn ástundi glæpi víða um heim eftir að í hendurnar á þeim barst mikið af gögnum sem þeir virðist lítið skilja í.
Samskipti byggð á blekkingum
Þótti mér þetta allt hið undarlegasta og hafði því samband við Anfinn og spurði hann útí málin. Anfinn sagði mér frá hvernig KVF (Færeyska Kringkastið) blekkti hann og setti upp viðtal sem var ekkert annað en fyrirsát. Fyrir viðtalið, sem hann hafði samþykkt, hafði hann fengið spurningar sem hann svaraði skilmerkilega. En eftir að viðtalinu var lokið og búið var taka af honum hljóðneman byrjaði óformlegt samtal og myndavélar áfram í gangi sem hann vissi ekkert um. Þetta eru orðin kunnugleg vinnubrögð fréttamanna hér á landi og ekki nema von að forsvarsmenn fyrirtækja séu farnir að neita að mæta í viðtöl hjá sumum miðlum. Anfinn segist ekki vilja tala við menn sem haga sér svona en hann sendi frá sér greinargerð eftir að þættirnir voru sýndir í færeyska sjónvarpinu. Greinargerðina er hægt að finna á vef kvf.fo inní grein sem heitir Anfinn Olsen vísir ákærum aftur.
En hvar er vélin?
Í bréfi sínu útskýrir Anfinn þau viðskipti sem fréttamenn eru nú að gera tortryggilegt og væri ekki vanþörf á því að þessi greinargerð birtist í íslenskum fjölmiðlum svo að landsmenn geti séð hið rétta í málinu.
Það er öllum ljóst að Anfinn og Elísabet eiga 67% Framherja og að auki eiga þau 27% hlut í félaginu Framinvest sem á 33% hlutinn í Framherja. Í þættinum voru sýndar 16 færslur til og frá Framherja og Framinvest sem allar voru vegna kaupa og sölu á skipum árið 2010, viðskipti og samningar sem fréttamennirnir vissu ekkert um eða kusu að segja ekki frá. Í bréfi sínu rekur Anfinn að skipin voru með erlent ríkisfang en urðu að vera skráð í Færeyjum. Skipin, sem voru að hluta eða að öllu leyti í eigu fyrirtækja Samherja, voru keypt og síðar seld aftur út til að ná markrílkvóta Færeyja sem hafði verið aukinn úr 85 í 150 þúsund tonn árið 2011. Höfðu Færeyingar hvorki skip né vinnslur til að taka á móti því magni á svo skömmum tíma ef undan er skilið ein vinnsla. Skip varð að vera eign útgerðar til að geta fengið makrílkvóta samkvæmt lögum þar einsog hér og þess vegna var það leyst með kaupum. Að auki var makrílstríð í gangi með löndunarbanni á Færeyinga í erlendum höfnum.
Allt þetta útskýrir Anfinn í bréfi sem hann sendir til KVF og er á vef þeirra. Tengil á þetta bréf sendi ég á Fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir útsendingu þáttarins en þeir sáu ekki ástæðu til að nefna það. Spurðu bara hvers vegna hann vildi ekki koma í viðtal. Svarið er að hann vill ekki tala við menn sem vilja ekki hlusta eða menn sem beita blekkingum. Vill það einhver?
Engin ástæða til rannsóknar í Færeyjum
Margt í þessu máli er erfitt að skilja. Hvers vegna er svona þáttargerð haldið úti þegar vitað er að engin rannsókn er í gangi í Færeyjum eða ástæða til rannsóknar? Allir reikningar, allra fyrirtækja sem þarna um ræðir eru vottaðir af endurskoðendum og yfirfarnir af yfirvöldum og allir reikningar afstemmdir. Einnig hafa allir reikningar Samherja verið rannsakaðir hér heima af Seðlabanka, Sérstökum saksóknara og Skattinum. Því til viðbótar skoðaði Seðlabankinn alla bankareikninga og bókhald kýpversku félaganna, svo og skatturinn. Skatturinn felldi það niður og þann 30. mars 2016 felldi Seðlabankinn líka niður málið vegna kýpversku félaganna. Þetta hefur allt verið skoðað í þaula og að sjálfsögðu yfirfarið af endurskoðendum og ekkert saknæmt komið fram. Ef eitthvað saknæmt hefði þar komið fram hefðu íslensk yfirvöld örugglega látið vini okkar í Færeyjum vita.
Við verðum að viðurkenna að það er engin vél í stígvélum. Við átum upp vitleysuna frá Dönum þegar við fyrst fengum stövler. Eins virðast íslenskir og færeyskir blaðamenn helst telja sér það til tekna að ræða hvor við annan um meint misferli og glæpi, án þess að hafa neitt í höndunum sem getur kallast sönnun eða staðfesting. Og þannig er verið að níðast á vini mínum Anfinn sem er nú í tröllahöndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Arðrán Evrópusambandsins
12.2.2021 | 15:50
Grein birt í Morgunblaðinu 12 feb 2021
ESB sendimenn hika ekki við að arðræna fátækar þjóðir eða múta ráðamönnum.
Nýverið bárust fréttir af kaupum Evrópusambandsins á veiðiheimildum við Grænland. Slær vefritið Kjarninn því upp að, ESB borg[i] mun meira fyrir fiskveiðar heldur en íslenskar útgerðir og reiknar einsog enginn sé morgundagurinn út þorskígildi og verð á kíló. Þetta er villandi samanburður og því vill ég fá að tiltaka nokkra þætti.
ESB er ekki útgerð eða fjölskyldufyrirtæki úti á land og gerir ekki út báta, hvorki í Evrópu né við Grænland. ESB borgar fyrir veiðiheimildir við Grænland úr sameiginlegum sjóðum ríkjasambands sem um leið styrkir og niðurgreiðir útgerðir í sínum löndum og styður þannig við óhagkvæmar útgerðir. ESB kaupir veiðiheimildir fyrir tugi miljarða króna á hverju ári, allt frá Grænlandi í norðri til Falklandseyja í suðri til handa útgerðum sinna landa og til að geta boðið evrópskan fisk í sínum löndum. Túristar sem telja sig vera að snæða rækjur á suðurströnd Spánar er líklega borða fisk veiddan við Vestur-Afríku af spænskum togara eða frá Grænlandi. Á spænsku skipunum sem veiða við Angóla eru yfirmennirnir spænskir en sjómennirnir innfæddir. Þeir fá greidd laun eftir því hvort eitthvað fæst uppí kostnað við veiðarnar og ef vel veiðist og menn eru heppnir geta þeir fengið hátt í 2000 kr. fyrir daginn. Meira er það ekki.
ESB nýtir allar leiðir til að ná í fisk og að komast gjarnan yfir veiðiheimildir með gilliboðum um þróunaraðstoð og styrki til viðkomandi ríkisstjórna eða hreinlega múta ráðamönnum eða ráðandi öflum. Hika sendimenn ESB ekki við að arðræna auðlindir fátækra þjóða og henda fyrir borð því sem lítið fæst fyrir. Þannig kaupa þeir veiðiheimildir í Senegal, Angóla, Máritaníu, Fílabeinsströndinni og Marokkó, svo einhver lönd séu nefnd. Skráning á afla er oft og iðulega fölsuð og eftirlit með lönduðum afla verulega ábótavant. Fara þeir sjaldan eftir vísindalegri ráðgjöf um hámarksafla og ganga illa um auðlindir með skipulögðu brottkasti. Meira segja kaupir ESB veiðiheimildir við Sómalíu þar sem stjórnleysi ríkir og heimamenn einna þekktastir fyrir sjóræningjastarfsemi sína.
Íslenskar útgerðir geta ekki keppt við fjölþjóðasamsteypur eða ríki sem sniðganga reglur, þvert á móti þurfa þær að verjast þeim og keppa við undirboð þeirra, tæknilegar viðskiptahindranir og gæðakröfur sem meðal annars ESB setur á okkur. Er ég nokkuð viss um að flest skip sem Spánverjar, Frakkar og Grikkir nota við veiðarnar í Afríku gætu ekki komist inní íslenska skipaskrána eða fengið veiðileyfi hjá Fiskistofu vegna brota á öryggisreglum eða gæðaeftirliti og aldrei kæmust íslenskar útgerðir upp með að greiða þau laun sem þeir bjóða sínum sjómönnum.
Það hefur ekki reynst þjóðum vel að semja við ESB um veiðiheimildir eða að hleypa þeim inní sína landhelgi, en sumar þjóðir gera það þegar þeir sjá peningana og gilliboð ESB. Víða við strendur Vestur-Afríku ganga þeir svo nærri fiskistofnum að strandveiðimenn eru hættir að fá í soðið og svelta á meðan yfirvöld fitna á styrkjum og mútum frá ESB. Að bera saman fiskveiðistjórnun ESB við auðlindagjöld íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er hvorki rétt né sanngjarnt. Þvert á móti er nöturlegt að fylgjast með hvernig ESB gengur um auðlindir annarra ríkja. Það er ekki til eftirbreytni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Litlu sjávarútvegsfyrirtækin og íslensku risarnir
8.2.2021 | 15:16
birt @visir.is/skoðun 15. maí 2020 17:00
Því er oft haldið fram að fyrirtæki í sjávarútvegi séu of stór og kvótinn sé á fárra manna höndum. Samhliða eru nefnd til sögunnar nokkur stærstu fyrirtækin og stjórnendur þeirra og gjarnan sagt: Þetta gengur ekki! En er þetta rétt, hver er hin raunverulega stærð þeirra og hvernig er samanburður við annan fyrirtækjarekstur hér á landi eða erlendis?
Ef við skoðum til að mynda neytendamarkað á Íslandi þá sést að þau fyrirtæki sem þjónusta einstaklinga og heimili hér á landi eru helst dagvöruverslanir, orkuveitur, tryggingafélög, fjölmiðlafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, olíusölur og bankar. Sjálfsagt er hér einhverjum gleymt en öll þessi félög hafa mikil áhrif á heimilisbókhald landsmanna og því forvitnilegt að skoða hverjir ráða þar för. Gnæfa sjávarútvegsfyrirtækin yfir þessi félög í stærð og umfangi? Nei, síður en svo. Skoðum það nánar.
Fyrirtæki heimilanna
Að sölu dagvöru standa að mestu tveir til þrír aðilar. Ef bara er tiltekin matvara sem er í lægra VSK þrepi þá er veltan þar nærri 160 milljarðar. Einungis þrír stórir (og 6 litlir aðilar) sjá um alla mjólk og kjötvöru, samtals með veltu uppá 60 milljarða.[1] Raforkusalar eru örfáir og aðeins einn dreifingaraðili. Í tryggingageiranum ráða þrjú félög yfir stærstum hluta markaðsins og þeir sem selja eldsneyti eru þrír stórir og tveir litlir. Þeir sem deila til okkar sjónvarpi og síma eru aðeins þrír og 2 lang stærstir. Viðskiptabankarnir eru þrír og þeir ákveða vaxtastigið og þjónustugjöldin. Út frá þessu má leiða líkur að því að þau fyrirtæki sem ákveða í raun afkomu heimilanna eru hugsanlega á milli 15 og 20. Þetta er ekki vísindaleg greining en sett fram til að varpa ljósi samanburðinn við sjávarútveginn. Til samanburðar er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi, Brim hf., með svipaða veltu af innlendri starfsemi og Costco í Garðabæ (bensín, matvara og dægurvara).[2] Fjögur olíufélög eru með meiri veltu en öll útgerð í landinu og hagnaður þeirra svipaður árið 2018.[3] [4] Þá er ekki dregið frá auðlindagjaldið sem leggst á útgerðina.
Margir hafa horn í síðu sjávarútvegsins og býsnast yfir samþjöppun og stærð en eru á sama tíma ekki mikið að velta fyrir sér stærð og umfangi þeirra fyrirtækja sem standa að sölu á dagvöru, bensíni, tryggingum, fjarskiptum, orku eða fjármálaþjónustu. Þó eru það þeir liðir sem mestu máli skipta fyrir heimilin í landinu.
Hömlur skaða sjávarútvegsfyrirtækin
Aflahlutdeild er úthlutað á 466 skip hér við land sem landa á 66 hafnir hringinn í kringum landið. 23 félög eiga 75% kvótans og 50 félög sem eiga 89% kvótans (Fiskistofa, 2019) [9].
Lætur nærri að um helmingur kvótans sé í eigu tíu félaga. Svona er lengi er hægt að telja en ekkert félag á meira en 10% af kvótanum. Þegar þetta er skoðað sést að sjávarútvegurinn stendur síður en svo fyrir meiri samþjöppun en önnur svið viðskiptalífsins. Fyrirtæki í sjávarútvegi hér á landi eru í harðri samkeppni á mörkuðum erlendis og þá oft á tíðum við miklu stærri fyrirtæki. Fyrirtæki sem þjónusta tæknihluta vinnslunnar eru bara tvö hér á landi og þau gætu hugsanlega staðið betur að samkeppni á erlendum vettvangi sameinuð. Sama á við um sjávarútveginn. Samkeppnin er á erlendum mörkuðum og þangað eigum að horfa. Ef horft er til stærðar erlendra sjávarútvegsfyrirtækja þá eru 10 stærstu fyrirtækin í heiminum með meðaltalsveltu uppá 500 milljarða. Við þau fyrirtæki eru íslensku fyrirtækin að keppa.
Með því að leita á erlenda markaði getum við með stærri fyrirtækjum sett mark okkar á alþjóðlegan sjávarútveg. Þar vefst fyrir mönnum að ná tökum á auðlindastýringu og rekstri fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir. Við getum því sem hægast leiðbeint öðrum þjóðum og veitt þeim aðstoð byggða á þeirri forskrift sem við höfum byggt upp með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Það að opinberar reglur takmarki stærð fyrirtækja hér á landi, til þess eins að einstaka aðilar græði ekki of mikið, er fásinna. Þeim sem gengur vel á að styrkja til að eflast og dafna í stað þess að setja á þá hömlur.
Í lögum um stjórn fiskveiða segir: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar [...] Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Mörgum sem fylgst hafa með sjávarútveginum og vilja efla hann finnst eins og við séum föst í fyrstu setningunni og við sem þjóð vitum ekki hvert stefna eigi. Við höfum hins vegar náð þeim markmiðunum sem koma fram í næstu setningu og getum gert enn betur. Við getum til dæmis aukið þekkingu í landinu umtalsvert með því að deila henni með öðrum. Um allt land er reynslumikið fólk sem veit hvernig á að reka sjávarútvegsfyrirtæki en er fast innan þess ramma sem við höfum búið okkur til. Horfum út fyrir kassann, ...hve skal lengi dorga dáðlaus upp við sand, orti Einar Benediktsson. Fleytan er of smá sá guli er utar, á líka við.
Í stað þess að agnúast út í sjávarútveginn eigum við að standa saman að því að gera enn betur. Sú sátt sem hefur verið boðuð og meðfylgjandi umræðupólitík leggur lítið til málanna en eykur frekar á öfund og úlfúð. Hættum því og leitum saman leiða að því að gera enn betur. Förum í víking með okkar fiskveiðistjórnunarkerfi og okkar reynslu af því að reka sjávarútveg með hagkvæmum hætti. Allir þeir sem hingað til hafa viljað breyta einhverju gefst tækifæri núna til að breyta heiminum. Hver er með?
Heimildir
[1] https://www.si.is/framleidsla-og-matvaeli/smk/
[2] https://www.vb.is/frettir/costco-med-10-markadshlutdeild/147264/?q=Bens%C3%ADn
[3] https://www.vb.is/frettir/gerjun-i-oliugeiranum/151742/
[4] http://hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2019/1cdb302d-e138-4dac-a4d1-140a31842f81.pdf
[5] Velta fyrirtækja skv. Samkeppnisstofnun 2017
[6] Velta tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna skv Fiskifréttum
[7] https://www.samherji.is/is/frettir/farsaell-rekstur-samherja-2017
[9]fiskistofa.is yfirlit úthlutunar 2019/2020
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fákeppni á matvörumarkaði, samkeppni í sjávarútvegi
8.2.2021 | 15:15
birt @visir.is/skoðun 23. september 2020 16:30
Út er komin skýrsla sem ber heitið: Um markaði Brims og tengdra félaga, samþjöppun og virkni þeirra. Skýrslan er unnin af fjármálafyrirtækinu Arev og kannar samkeppni með aflaheimildir [1] í sjávarútvegi og ber saman við annan atvinnurekstur hér á landi. Í skýrslunni er einnig skoðuð samkeppni á matvörumarkaði og í bankastarfssemi og almennt þá miklu samþjöppun sem er að finna í íslensku viðskiptalífi. Niðurstöðurnar sýna að samkeppni um aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja er mikill, virkni aðfangamarkaða sömuleiðis og miklu mun meiri en í öðrum greinum atvinnulífsins hér á landi. Skýrsluhöfundar nota HHI mælikvarðann sem er notaður af Samkeppniseftirlitinu hérlendis, sem og erlendis, og reiknar út fjölbreytileika tiltekins safns, sambærilegt og gert er í vísindagreiningu með aðra stuðla innan vistfræði, eðlisfræði og stjórnmálafræði.
Í maí skrifaði ég grein um litlu sjávarútvegsfyrirtækin og risana á íslenskum markaði. Þá vakti ég athygli á því að þeir sem hvað mest áhrif hafa á afkomu heimilanna eru afskiptir í umræðunni og undraðist áhuga sumra fjölmiðla og stjórnmálaflokka á nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Mikið er talað um samþjöppun og fákeppni í sjávarútvegi en minna um þá starfsemi stórfyrirtækjanna sem varða heimilin í landinu mestu. Hvað veldur því? Þessi skýrsla sýnir svo óyggjandi sé að fákeppni ríkir á dagvörumarkaði en ekki í sjávarútvegi. Reiknuð voru samþjöppunarhlutföll fyrirtækja eftir sameiningar og þar kemur fram að samþjöppun er 8 sinnum meiri hjá Högum eftir samruna en er hjá Brim hf. Það er áhugavert að sjá að Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna N1 og Festi, Haga og Olís í apríl á síðasta ári en hefur rannsakað samruna hjá Brim síðan í maí 2018 án niðurstöðu. Er það eðlilegt? Vel að merkja, þá fara afurðir sjávarútvegsfyrirtækja nær allar á erlendan markað þannig að félögin eru ekki að keppa á íslenskum neytendamarkaði en það ætti að vera aðalhlutverk samkeppnisyfirvalda að tryggja stöðu íslenskra neytenda.
Fyrir þá sem til þekkja í sjávarútvegi þá kemur niðurstaða skýrslunnar ekki á óvart enda vitað að samkeppni þar er mikil. Það er grimm samkeppni milli fyrirtækja í sjávarútvegi enda fyrirtækin rekin á ólíkan hátt þegar kemur að veiðum, vinnslu, sölu og öðru því er tengist úrvinnslu afla. Það ríkir mikil samkeppni um aflaheimildir, góð skip, veiði- og, vinnslutækni og fært starfsfólk. Útávið, á erlendum mörkuðum, reyna sjávarútvegsfyrirtækin að standa saman þegar hagur lands og þjóðar er í húfi. Sumir virðast telja sig hafa pólitískan hag af því að halda því að fólki að fáir aðilar stjórni öllu í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur leitt til þess að kallað er eftir rannsóknum á rekstri þessara fyrirtækja með tortryggni að leiðarljósi. Beita menn óspart eftirlitsstofnunum ríkisins, svo og fréttastofu ríkisins í þau verkefni. Svo þegar ekkert misjafnt finnst þá telja menn að ekki hafi verið rannsakað nægilega vel. Það er einsog þeir segja í heilbrigðiskerfinu: að það sé ekki til heilbrigður einstaklingur, það er bara til einstaklingur sem ekki er búið að rannsaka nóg!
En staðreyndir tala sínu máli. Samkeppni í sjávarútvegi er mörgum sinnum meiri en innan markaðar með matvöru og bankastarfsemi samkvæmt niðurstöðu þessarar skýrslu. Ekki voru teknar fyrir aðrar atvinnugreinar en eins og ég benti á í áðurnefndri grein minni þá ríkir fákeppni víðar en tiltekið er í skýrslunni. Nefndi ég orkusölu, sjónvarpsaðgang, tryggingarekstur, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og bensínsölu. Fleira hefði verið hægt að telja til. Væri full þörf á að það væri tekið saman og gefið út af Samkeppnisstofnun sambærilegur vegvísir fyrir almenning um hvar samkeppni er minnst og hvar mest samkeppni ríkir og birta á heimasíðu sinnu. Þessi gögn ættu heima þar alveg eins og Fiskistofa birtir allar tilfærslur á aflaheimildum báta og úthlutanir á kvóta hver báts. Það væri kannski ekki úr vegi að Verðlagsstofa tæki að sér að birta til dæmis innflutningsverð á olíu og bensíni og hvaða magn væri flutt inn hverju sinni, rétt eins og allar landanir og verð á fiski er birt hverju sinni á vef Fiskistofu og hjá Verðlagsstofu skiptaverðs.
Nýverið hefur verið sýnt framá að falsfréttir á netmiðlum fá sex sinnum meiri athygli en sannar fréttir. Samkvæmt þessu ættu sex sinnum fleiri að lesa fréttir um fákeppni í sjávarútvegi en þá staðreynd að þau eru í bullandi samkeppni. En við verðum að trúa því að sannleikurinn sigri að lokum.
[1] "Samkeppni virk og lítil samþjöppun í sjávarútvegi - Brim | Frétt." 21 Sep. 2020, https://www.brim.is/frettir/frett/2020/09/21/Samkeppni-virk-og-litil-samthjoppun-i-sjavarutvegi/?NavigationYear=2020&NavigationMonth=09. Sótt 22 Sept. 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brottkast, brottkast
8.2.2021 | 14:48
Þegar þetta er sagt er sláandi að lesa að svo miklu magni sé hent og þeir aðilar sem ég hef rætt við innan greinarinnar eru slegnir yfir í niðurstöðu skýrslunnar. Satt best að segja skilur enginn hvernig þetta má vera og furða sig á að svo miklu af fiski sé hent. Sérstaklega þegar haft er í huga að þetta tiltekna ár, 2017, gengu þorskveiðar mjög vel og fiskur var mjög stór. Því virðist ástæðulaust að henda fiski, sem menn hafi á annað borð náð um borð, þegar menn eru við veiðar.
En við nánari skoðun á skýrslunni kemur margt ekki fram og vantar í hana nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að bregðast við af hagsmunaaðilum og þeim sem hafa um málið að segja. Hvar eru menn að henda fiski og af hvaða svæðum? Ef við skoðum bara botnvörpuveiðar árið 2017 þá er samkvæmt skýrslunni reiknað með að nærri 4% af þorsk veiddum í troll það ár hafi verið hent. Það þýðir að 4 kör af hverjum 100 hafi farið í sjóinn eftir að búið er að veiða þann fisk. Menn finna fyrir því. Gleymum því ekki að þorskur var mjög vænn árið 2017.
Í skýrslunni kemur fram að 24 reitir af 84 voru teknir til mælinga af starfsmönnum Fiskistofu við útreikninga á brottkasti úr botnvörpu. Fiskistofa aflaði gagnanna og þau voru notuð af starfsmönnum Haf- og vatnarannsókna við gerð þessarar skýrslu. Hvernig úrtakið var valið kemur ekki fram og ekki tekið fram hvort um slembiúrtak hafi verið að ræða á reitum til rannsóknar sem er mikilvægt að vita við úrvinnslu ef verið er að vinna með tölfræði. Ekki er heldur upplýst hvort sá afli, sem skoðaður var um borð í veiðiskipum, hafi verið borinn saman við sömu löndun veiðiskips og með sama poka í báðum tilfellum. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að bátar nota bæði poka með 135mm möskva og 155mm möskva við veiðar. Þannig að ef afli, sem mældur er um borð í veiðiskipi, kemur úr 135 mm poka er borinn saman við afla í landi, sem kemur úr sama veiðiskipi sem hafði notað 155mm poka, þá mælist það sem brottkast. Upplýsingar um þetta er ekki að finna í skýrslunni.
Annað sem ekki kemur fram í þessari skýrslu, er hvernig unnið er úr gögnum úr reitum og hvernig þeir eru bornir saman við afla og hvort afli sem veiddur er á ákveðnum reit sé borinn saman við afla landaður úr viðkomandi reit. Svo ég útskýri þetta nánar þá fylgist Fiskistofa vel með að ekki sé verið að veiða af svæðum þar sem smáfiskur heldur sig. Mælingar eru framkvæmdar af Fiskistofu á hlutfalli smáfisks (þorskur undir 55 cm) og ef hann fer yfir ákveðið hlutfall þá er veiðisvæði lokað. Á sumum svæðum veiðist meir af þorski undir 55 cm og ef afli af þeim reitum er borin saman við afla lönduðum af öðrum reitum þar sem stærri fiskur heldur sig þá er augljóst að minna kemur í land af minni fiski. Það yrði tekið í þessari aðferð sem brottkast á smáfiski.
Eins og áður sagði voru það starfsmenn Fiskistofu sem sáu um gagnaöflun. Ríksendurskoðun tók út starfsemi Fiskistofu og skiluðu skýrslu um hana í desember 2018. Þar var vakin sérstök athygli á nokkrum atriðum og sagði orðrétt [e]ftirlit stofnunarinnar með brottkasti er veikburða og ómarkvisst. Raunverulegur árangur þess er auk þess á huldu þar sem hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið eða árangursmælingar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að við mælingar á brottkasti skuli mæla að lágmarki 200 þorska og 200 ýsur í hverri mælingu og jafn margar mælingar í landi af lönduðum afla. Síðar var þessu breytt í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun (sem heitir núna Haf- og vatnarannsóknir) í 100 fiska. Í þessari skýrslu Haf og vatnarannsókna núna er bara talað um 90 fiska í hverri mælingu af hverjum reit. Er augljóst að Fiskistofa er ekki að fara eftir tilmælum og athugasemdum Ríkisendurskoðunar.
Það er ljóst að það verður að kryfja þetta mál og rannsaka mun betur. Það er ólíðandi að menn séu að henda fiski en það er líka slæmt að væna menn um rangindi séu þau ekki til staðar. Ekki er hægt að lesa út úr þessari skýrslu hvernig rannsóknin var framkvæmd og því ómögulegt að meta hana á sanngjarnan hátt, hvað þá að finna út hvar vandinn liggur. Það er ekki nóg að kalla brottkast brottkast og útskýra þá svo ekkert frekar. En starfsmenn Haf og vatnarannsókn treysta sér til að segja að 4% af þorski hafði verið hent við botnvörpuveiðar árið 2017 ásamt mörgum öðrum staðhæfingum sem finna má í skýrslu þessari. En að lokum leifi ég mér að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem segir orðrétt. Í ljósi þess hversu takmarkað eftirlit stjórnvöld hafa með brottkasti sem og takmarkaðra rannsókna á umfangi þess er vart tilefni til fullyrðinga um umfang brottkasts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorgir sameignar
8.2.2021 | 14:43
Það er áhugavert hvað sameignir geta valdið miklum deilum og vandamálum, hvort heldur þær eru í húsfélagi eða synda í hafinu umhverfis landið.
Það sem okkur hér á landi skiptir mestu er umgengnin um auðlindir hafsins og hvernig þeim er ráðstafað. Um það höfum við sett lög, Lög um stjórn fiskveiða, og hafa þau frá fyrsta degi valdið miklum deilum. Fáir innan sjávarútvegsins vildu þessi lög á sínum tíma en menn voru sammála um að eitthvað yrði til bragðs að taka. Fyrst þegar lögin voru sett, voru menn innan sjávarútvegsins ósáttir með takmörkunina og skiptinguna sín á milli en núna birtist óánægjan meira meðal almennings. Það var þó ekki fyrr en lögin fóru að virka einsog til stóð og árangurinn fór að birtast í betri rekstri og meiri arðsemi.
Bandaríski hagfræðingurinn Elinor Ostrom fékk nóbelsverðlaunin í hagfræði, fyrst kvenna, árið 2009. Hún sagði eitthvað á þessa leið, í endursögn höfundar:
Meðan fyrirtæki með eigin skipulag og stjórn hafa ekki mótaðan og viðurkenndan fræðilegan grunn, byggðan á bestu manna yfirsýn, þá munu mikilvægar ákvarðanir um stefnu áfram verða teknar undir því fororði að einstaklingar geti ekki skipulagt sig sjálfir heldur verði utanaðkomandi stjórnvald að skipuleggja þá.
Hinn fræðilegi grunnur, byggður á bestu manna yfirsýn, sem Elinor Ostrom talar um, er háður stöðugri vísindalegri endurskoðun sem ekki er á færi einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi. Megintilgangur laga um stjórn fiskveiða var að stöðva ofveiði sem var við það að eyðileggja okkar mikilvægu fiskstofna. Það var ekki einungis að við veiddum of mikið úr okkar stofnum, við vorum líka að tapa mannslífum og fjármunum við þær veiðar. Bátar voru of margir við veiðarnar og kostnaður við þær of hár. Núna hagnast útgerðir, fiskistofnarnir eru sjálfbærir og enginn hefur farist á sjó við veiðarnar síðastliðin þrjú ár. Þetta samhengi eiga sumir erfitt með að sjá.
Núna erum við í þeirri klaufalegu stöðu að ráðherra braut lögin sem hann átti að fara eftir. Honum má þó telja til vorkunnar að hingað kom syndandi fiskistofn sem ekki hafði verið hér áður. Stofn sem aðrar þjóðir nýttu og við gátum farið að nýta í kjölfar þess að hann kom inn í lögsögu okkar. Í fyrstu voru það aðeins stærstu skipin sem höfðu tök á að veiða úr þessum stofni og aflað þeirrar veiðireynslu sem var að grundvelli úthlutunar kvóta samkvæmt lögum.
Þegar makrílstofninn kom nær landi og fleiri höfðu aðstöðu til að nýta hann var nauðsynlegt að setja útgerðum kvóta, en margir töldu þá veiðireynsluna ekki byggjast á sanngirni. Þar á meðal var þáverandi sjávarútvegsráðherra, sem taldi sig hafa lagaheimild til þess að úthluta kvótanum af meiri sanngirni með sínu pólitíska nefi en bókstafurinn og aflatölurnar sögðu til um. Dómstólar voru honum ekki sammála. Reyndar voru nær allir ósammála honum þegar hann framkvæmdi úthlutunina, enda eftir honum haft að fyrst allir væru ósáttir þá hlyti þetta að vera í lagi!
Skipulag ráðherra var dæmt ólögmætt, fyrst af umboðsmanni Alþingis og að endingu í Hæstarétti.
Ráðherrar, jafnvel þeir með réttlátt pólitískt nef, hafa ekki leyfi til að fara út fyrir þær valdheimildir sem bókstafur laganna kveður á um. Þá vernd hefur borgarinn gegn misnotkun valds þeirra. Stjórnendur fyrirtækja skulu gæta hagsmuna fyrirtækisins að viðlagðri ábyrgð eins og nýlegir dómar á hendur bankastjórum föllnu bankana hafa sýnt. Í þessu tilfelli ber þeim að sækja bætur hafi ólöglegar ákvarðanir ráðherra skaðað fyrirtækið. Málsókn á hendur stjórnvöldum er eina leiðin sem þeim er fær að lögum eða þá hitt, að gera ekki neitt og benda á mistökin, og finna sameiginlega leið til að lagfæra þessi mistök.
Stjórnvöld eiga að viðurkenna mistökin við gjörnings ráðherrann sem taldi sitt réttláta pólitíska nef betra en lögin. Við meigum ekki gleyma því að þetta snýst líka um verndun þegnanna gegn misbeitingu valds stjórnvalda. Menn geta býsnast yfir ráðherra eða hrákasmíði á lögum, en vilji þeir af þessu tilefni býsnast yfir kvótakerfinu er þeirra eigin réttláta pólitíska nef að leiða þá á villigötur. Kvótakerfið er gott og hefur reynst frábærlega við að koma á skynsamri og hagsýnni stjórnun veiða en núna eru bæði einstök fyrirtæki og stjórnvöld að skaða heildarhagsmuni landsins.
Það er auðvitað skrítið að útgerðir geti sótt bætur til ríkisins fyrir að hafa ekki fengið afhenta eign frá ríkinu þó svo að lögin kveði á um slíkt. En lögin eru mannanna verk eins og annað og sameiginleg auðlind er afhent útgerðum til nýtingar þannig að heildarhagsmunum sé sem best borgið. Einstaka útgerðir hugsa eðlilega um eigin hag og þess vegna þarf utanaðkomandi stjórnvald að koma með reglur um nýtinguna einsog áður sagði. Þannig færir ríkið útgerðum verðmæti en ekki rétt til skaðabóta ef þeir fá ekki veiðiréttinn. En svo er hitt ef ríkið veldur fyrirtækjum skaða þá eðlilega á það að greiða skaðabætur.
Þetta mál þarf að leysa með sátt og það áður en dómstólar þurfa að dæma í málinu aftur.
Það er ekki lausn að hluta barnið í tvo hluta með Salómon dómi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rangfærslur Fréttastofu ríkisins
8.2.2021 | 14:39
Komin eru fram gögn sem sýna greiningu á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009. Gögnin eru unnin af Verðlagsstofu skiptaverðs úr tölum frá Fiskistofu. Þar kemur fram skiptaverð með einfaldri nálgun Verðlagsstofu á kostnað við flutning og sölu. Þessi gögn hafa verið grunnur að miklum fréttum um svindl og svik við sjómenn Samherja ásamt öðrum ásökunum sem fabúlerað var um í fréttunum. Í fréttum byggðum á þessum gögnum er staðhæft að Samherji greiði 230 krónur fyrir kílóið af karfa á meðan aðrir gera upp við sjómenn með viðmiðunarverð 320 krónur fyrir kíló af karfa. Vinnslustöðin hefur sömuleiðis fengið á sig umfjöllun vegna þessa en ekki rannsóknir eins og Samherji hefur mátt þola.
Ef við skoðum það sem stendur í samantektinni og haldið er fram í fréttum Fréttastofu ríkisins þá blasir við að enginn er að fá 320 krónur fyrir karfann. Það verð er ekki til og allar verðtölur eru lægri en þessar 320 krónur. Hæsta einingarverðið er frá Vinnslustöðinni, af 106 tonnum af karfa, sem náði 290,45 kr/kg. Nafn og bátur er þar yfirstrikað en framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hefur upplýst að þarna er um að ræða sölur sem þeir eiga.
Í öðru lagi þá eru ekki allir þeir bátar sem nefndir eru í samantektinni í eigu Samherja. Bjartur, Ljósafell og Múlaberg eru í eigu annarra félaga, félög með framkvæmdastjóra sem ákveða að selja aflann til Samherja á því verði sem þeir telja best á hverjumtíma og með töluvert meira magn en af skipum Samherja.
Í þriðja lagi þá segir niðurlag samantektarinnar allt sem segja þarf. Þau verð [sic!]sem Samherji greiðir]] eru þó langt yfir þeim verðum [sic!] sem fengust fyrir karfann í beinni sölu innanlands. Þessu var viljandi sleppt í umfjöllun Fréttastofu ríkisins og gefur tilefni til að ætla að ásetningurinn hafi verið að búa til frétt en ekki að flytja frétt.
Það er fleira hægt að setja útá þessa samantekt eins og að nota meðalgengi evru yfir árið til samanburðar á einstökum sölum og að taka frá flatan 15% kostnað en ekki raunverulega kostnað af sölu á markaði. Mikil sveifla var á gengi evru árið 2008 en hún fór hæst uppí 187 kr. en lægst í 91 kr. og því er vonlaust að bera saman einstakar sölur og nota til þess meðalgengi ársins. Það væri svipað og að Landmælingar myndu nota meðaltöl á fjallgarða við sína vinnu.
Það væri vel ef Fréttastofan myndi flytja fréttir af því sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi síðustu misserin og um þann stórhug sem er þar að finna. Hátæknivinnslur með gervigreind hafa verið reistar í Vestmannaeyjum, Grindavík, á Dalvík og í Grundarfirði. Að auki hefur verið fjárfest verið í nýjum bátum sem eyða minni olíu og eru miklu öruggari fyrir sjómenn en nokkru sinni áður. Framleiðni er að stóraukast í við vinnslu sjávarfangs, þrátt fyrir að framleiðni á hvert starf hafi verið mest allra atvinnugreina. Það er því óskiljanlegt að verið sé að saka menn í sjávarútvegi um svindl og svínarí þegar, þvert á móti, þeir eru að bæta samfélag okkar hér á landi, öllum til hagsbóta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Seljan og Samherji
12.8.2020 | 16:49
Nú virðist sem myndin sé að skýrast.
Það hefur áður komið fram í rannsókninni hjá Seðlabanka að þeir gerðu mistök í útreikningum þar sem ekki var verið að vinna með vegið meðaltal. Önnur algeng mistök sem menn gera er að bera saman skilaverð hingað heim og söluverð á markaði hinsvegar. Þegar fiskur er seldur á erlenda markaði geta verð sveiflast mikið og sérstaklega á þýskalandsmarkaði með karfa. Er sá markaður viðkvæmur fyrir magninu sem kemur inn á hann og ef lítið framboð berst inná markaðinn frá Íslandi, Noregi, Færeyjum og fleiri löndum þá geta verð oft á tíðum verið mjög há á litlu magni. Getur sá verðmunur verið tífaldur á milli vikna. Ef menn gæta sín ekki í því að taka tillits til þess magns sem verið er að fjalla um í þessum viðskiptum og kostnaðar við söluna geta menn komist að rangri niðurstöðu.
það virðist sem Helgi Seljan hafi því miður gert það og slegið upp einhverju stóru sem ekki var. Verðlagsstofa vísaði þessu máli til úrskurðarnefndar og þar sáu menn ekkert að málinu að ég best veit. Ekkert var ákært eða frekar gert með þessar upplýsingar. Helgi gerði einfaldlega mistök.
Það er töluverður munur á skýrslu og tölugögnum sem menn eru að vinna með. Skýrsla hefði verið ritrýnd og farið yfir af Verðslagsstofu og fengið þar málsnúmer. Augljóslega eru til gögn sem lágu fyrir og starfsmenn stöðugt að vinna með. Þessar tölur hefur Helgi komist í og unnið með á sinn hátt einsog frægt er orðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verjum Bláa hagkerfið
30.3.2020 | 14:38
Alþjóðasamfélagið er í auknum mæli farið að beina sjónum að hafinu og vistkerfi þess og þar stöndum við öðrum þjóðum framar.
Það getur margt reynt á þolrif þeirra sem starfa í íslenskum sjávarútvegi í dag. Ekki einungis þurfa menn að fást við vandasaman rekstur, óblíð náttúruöfl og ótrygga markaði heldur ekki síður andsnúna og villandi umræðu hér heima við. Þannig virðast margir finna útgerðinni það helst til foráttu að hún er þrátt fyrir allt rekin með hagnaði. Eins ótrúlegt og það er, virðist það helsta vandamál sjávarútvegsins í hugum sumra. Umræðan virðist þannig lituð af fordómum og öfund og er það með ólíkindum þegar horft er til þess hve farsællega hefur gengið að breyta sjávarútveginum í vel rekin atvinnuveg sem beitir nýjustu tækni við að nýta viðkvæma náttúruauðlind án þess að ógna eða raska henni. Þannig höfum við reynst öðrum þjóðum góð fyrirmynd.
Auðlindastýring og endurgjald
Flestum má vera ljóst að samfélagsleg ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja er að mörgu leyti meiri en gengur og gerist í atvinnulífinu en margar byggðir reiða sig á veiðar og vinnslu. Þá er framleiðni vinnuafls og laun betri en víðast annars staðar. Þrátt fyrir það greiðir sjávarútvegurinn auðlindagjald, ein starfsgreina á Íslandi. Á meðan eru margar aðrar starfsgreinar að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir án þess að greiða fyrir. Þar er forvitnilegt að horfa til ríkisfyrirtækja sem mörg hver virðast rekin án afskipta ríkisins og skammta sér og sínum laun. Um leið ráða þau sjálf verðlagningunni á þjónustunni og borga ekkert fyrir aðganginn. Er ég þar að tala um Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.
Það sem er sameiginlegt með sjávarútvegi og orkufyrirtækjum að þau nýta auðlindir landsins. Orkufyrirtækin nota vatnið sem fellur á landið en útgerðin það sem syndir í sjónum. Hvorutveggja er takmörkuð auðlind sem er nýtt með miklum og dýrum aflvélum á sjó eða grafin í fjöll. Nýtingin er hámörkuð á hverjum tíma með reiknilíkönum sem taka tillit til notkunar yfir árið og í samræmi við markaðsástand hverju sinni. Fjárfesting í búnaði er gríðarleg og afskrifast á löngum tíma og því þarf langtímaáætlannagerð og -nýtingu um þann búnað. Skyndilegar breytingar á rekstrarumhverfi eru hættulegar, bæði fyrirtækjum og samfélögum sem þau starfa í.
Ýmsir óábyrgir aðilar hafa bligðunarlaust kallað eftir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og vilja umbylta því. Breytingar á umhverfi þessara fyrirtækja gerast á löngum tíma og snöggar breytingar á rekstrarumhverfi eru kostnaðarsamar og til tjóns fyrir atvinnugreinar, svo og fólkið sem þar vinnur.
Það væri óskandi að við Íslendingar gætum tekið höndum saman um að horfa á jákvæðu hliðar þess sem við höfum náð að gera í okkar gjöfula en erfiða landi og þá sérstaklega í orkuvinnslu og innan sjávarútvegs. Staðreyndin er sú að það eru fáar ef nokkrar þjóðir með eins þróaðan sjávarútveg og við hér á landi. Tæknifyrirtæki, sem selja búnað sem hannaður hefur verið fyrir íslenska fiskvinnslu, selja þennan búnað í matvælavinnslu út um allan heim. Íslenskir sjómenn eru eftirsóttir og veiðafæratækni okkar eru notuð meðal flestra þjóða sem stunda veiðar með afkastamiklum skipum.
Bláa hagkerfið
Staðreyndin er sú að tugir þjóða, sem hafa aðgang að fiskimiðum, eru ýmist ekki að nýta sínar auðlindir eða arðræna þær með ofnýtingu. Heildarveiði þjóða heims er um 80 milljónir tonna á ári og hefur svo verið síðastliðin 30 ár. 70% veiða eru stjórnlausar. Þróunarþjóðir veiða um 75% af heimsaflanum (2015). Við teljumst eðlilega vera þróuð þjóð og getum miðlað okkar þekkingu til þjóða sem skemmra eru á vegi staddar á sviði sjávarútvegs, svo og annar staðar þar sem við höfum náð góðum árangri, eins og í orkuvinnslu. Hér á landi höfum við búið til forskrift að kerfi sem ætti að geta nýst öðrum þjóðum. Alþjóðasamfélagið er í auknum mæli farið að beina sjónum að hafinu og vistkerfi þess og þar stöndum við öðrum þjóðum framar. Eigum við ekki að beina kröftum okkar að því að vekja upp áhuga alþjóðastofnana og annarra ríkja að því sem við höfum gert hér með fiskveiðistjórnunarkerfi okkar þar sem áhersla hefur aukist á Bláa hagkerfinu og heimsmarkmiði #14.
Í stað þess að reyna að breyta því sem ekki þarf að breyta gætum við einbeitt okkur að því að veita þjóðum aðstoð á þeim sviðum sem við höfum náð árangri en það er auðlindastýring. Þar er ég kominn að kjarna málsins. Í stað þessa að eyðileggja það sem í lagi hér á landi eigum við að hætta að hlusta úrtöluraddir þeirra sem þjást af hugsjónaörbyggð og þess í stað sækja á ný mið. Þannig getum við unnið að því að styðja við þau heimsmarkmiðum sem við höfum skrifað undir og eigum að efla.
Þannig byggjum við betri jörð.
Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa Hagkerfissins.
Grein birt í Morgunblaðinu 25 mars 2020
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Minnispunktar um Orkupakka 3 - Hvað hefur verið gert
29.3.2019 | 19:30
Helstu atriði frá Utanríkisráðuneyti vegna 3ja Orkupakkans Um sameiginlegan skilning um gildi þriðja orkupakkans.
Lagabreytingin:
Álit Stefáns Más Stefánssonar og Skúla Magnússonar:
Umsókn um að vera á PCI lista dregin til baka | 29 mars 2019 Helstu atriði:
Sameiginlegur skilningur um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku) Stjórnskipunarvandinn Stefán Már Stefánsson prófessor vann ásamt Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB og EFTA vegna þriðja orkupakka ESB. Úr Fréttatilkynningu Utanríksiráðuneytis og Atvinnumálaráðauneytis frá 22 mars. Á sameiginlegum þingflokksfundi stjórnarflokkanna 20. mars sl. var ákveðið að draga til baka umsókn um sæstrengsverkefnið IceLink inn á fjórða PCI-listann (e. Projects of Common Interest). Hefur erindi þess efnis þegar verið sent. Samantekið 29 mars 2019 Svanur Guðmundsson |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)