Fréttir af íslenskum sjávarútvegi í Noregi
3.3.2023 | 22:29
Í febrúarhefti Innsikt, sem fylgir dagblaðinu Aftenposten einu sinni í mánuði, birtist mikil úttekt á meintri spillingu í íslenskum sjávarútvegi þar sem kastljósið beindist sérstaklega að málefnum Samherja. Þar hafði danskur blaðamaður Lasse Skytt viðað að sér upplýsingar um viðskipti Samherja í Namibíu. Það var augljóst að fréttin var unnin upp úr upplýsingum frá blaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans (nú Heimildarinnar) og viðtal við þá suma í greininni. Sú mynd sem þar var dregin upp var frekar ófögur en fyrir þá sem til þekkja var auðséð að Lasse Skytt þekkti ekkert til kvótakerfisins á Íslandi og þær upplýsingar sem hann nýtti sér voru eingöngu frá áðurnefndum blaðamönnum. Sagðist hann hafa leitað svara frá Samherja en ekki fengið nein svör frá þeim.
Umræddur Lasse Skytt sérhæfir sig í fréttum um Ungverjaland og pólitísk málefni þar, svo og sýndarveruleika og myndavéladróna. Býðst hann til að taka sér verkefni innan 360 fréttamennsku hvað sem það nú þýðir.
Ég ætla ekki að telja upp það sem kemur fram í þessari grein því það er ástæðulaust nema það sem ritstjóri Innsikt segir í ritstjórnargrein með febrúarblaðinu en þar fjallar hún um þessa umfjöllun og segir í lok forystugreinar sinnar Grådighet gjör blind men åpenbart ikke klok av skade sem hægt er að þýða græðgin blindar en lærir ekki af mistökum.
Í Noregi er litið á Aftenposten sem virðulegan miðil og hef ég alltaf talið að blaðið sé vandað að virðingu sinni. Hefur það þann stall í huga mínum og margra Norðmanna að vera jafn áreiðanlegt og NRK, norska ríkisútvarpið/sjónvarp. Það er augljóst að blaðið hljóp verulega á sig með birtingu þessar greinar því ritstjórinn birti langa afsökunarbeiðni í marsblaði Innsikt og taldi upp helstu mistök blaðamanns við vinnslu greinarinnar sem birtist í febrúarheftinu og rangfærslur sem þar birtust og ekki voru staðfestar af öðru en sögusögnum.
Það væri áhugavert að vita hverjir hafa fengið þennan Lasse Skytt til þess að skrifa umrædda grein. Er það ekki rannsóknarefni? Eini tilgangur hennar virðist hafa verið að sverta íslenskan sjávarútveg og fyrirtækið Samherja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.