Vorrall - Árni mokfiskar

Árni Friðriksson í GrunarfjarðarhöfnÍ dag 22. mars þurfti hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson HF 200 að gera hlé á rannsóknum sínum, svokölluðu vorralli og landa fullfermi, mest karfa, í Grundarfirði. Árni Friðriksson fékk karfann  43 rannsóknartogum sem hvert um sig eru ekki nema fjögurra sjómílna löng. Þrátt fyrir mikla ótíð reyndist  karfinn vera út um allt og er að truflaði rannsóknirnar, eða svo segja sjómenn með glotti við tíðindamann minn.

 

Skjámynd 2022-03-22  tog Árna löndun GRfj

Myndin sýnir græna ferillinn sem nær utan um  togin þar sem fiskurinn veiddist sem landað er í Grundarfirði. 

 

Nýir Tyson hlerar eftir JósafatsteikninguÁnægjulegt er að sjá að Árni Friðriksson er kominn með nýja hlera og verður  forvitnilegt að sjá þegar gögnin koma úr leiðangrinum hvort nýju hlerarnir eru að breyta svona miklu. Ég nefni hlerana sérstaklega hér þar sem ég benti á í skýrslu minni Samantekt á stofnmati karfa og grálúðu að þörf væri á að skipta um hlera hjá rannsóknarskipunum.

 

Eftir því sem komist verður næst var afli Árna Friðrikssonar  meiri en það sem landað er því skipsverjar þurftu að henda afla sem þeir náðu ekki að koma fyrir í skipinu. Svo vel mun hafa  fiskast. 

 

Við komuna inn til hafnar þurfti Árni Friðriksson að skáskjóta sér inn á milli þorskaneta sem flutu upp í Grundarfirði því þau voru svo full af fiski. Fiskurinn er að því virðist þorskur sem er að hrygna í Grundarfirði en því var haldið fram áður fyrr að enginn þorskur hrygni í Breiðarfirði.

 

Það verður forvitnilegt að sjá hvort það er smákarfi sem var  að gefa sig í þessum leiðangri. Módel Hafrannsóknarstofnunar ganga út á að smákarfinn finnist og óvissan minnki þá í stofnmatinu. Þá þurfi ekki að gæta varúðarsjónarmiða við úthlutun karfa eins og nú er gert. Á það reyndar við um marga stofna. 

 

SG 23/3 2022 

Uppfærsla 23 mars : Við munum líklega ekki sjá smákarfan á markaðnum því smákarfanum var hent í sjóinn því hann komast ekki fyrir í skipinu.




Hvert fara sjávarafurðir!

Hvert fara okkar sjávarafurðir?

Við fluttum út sjávarafurðir til 95 landa fyrir um 270 milljaðar á árinu 2020. Þau lönd sem kaupa af okkur afurðir fyrir meir en milljarð eru 21 og taka við 95% af þeim verðmætum sem við flytum út. útflutningslönd 2020

Hlutfallsleg skipting eftir löndum sést svo á þessari mynd. 

útflutningslönd 2020 95% útflutnings

Myndirnar eru unnar uppúr gögnum Hagstofu sjá tengil...

 

 


Ritstjóri reiknar

Meðfylgjandi myndir eru úrklippur úr Fréttablaðinu í gær, 17. febrúar 2022. Ritstjórinn og fyrrverandi alþingismaður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, bregður undir sig reiknistokknum og telur sig finna hve mikið sjávarútvegurinn getur borgað í auðlindagjald. Þannig finnur hann út á einu augabragði að það er hægt að greiða 36 milljarðar króna í auðlindagjald á ári og það sé aðeins  3% af þeim auðæfum sem verða til í sjávarútvegi á hverju ári.

SigmErnir1

Þetta finnur hann út frá þeirri „staðhæfingu“ að tólf hundruð milljarða króna verðmæti verði til á hverju ári í íslenskri lögsögu. Tólf hundruð milljarðar segir hann og skrifar. Skoðum þessa tölu í samhengi við annað. Heildar útflutningsverðmæti Íslands árið 2020 var tíu hundruð milljarðar samkvæmt Hagstofunni. Eða skrifað á annan átt kr. 1.200.000.000.000,- (12x1011) verðmætaaukning sjávarútvegs en heildarútflutningsverðmæti allrar framleiðslu landsins  árið 2020 var kr. 1.006.000.000.000,- (10x1011). Þetta sjá allir heilvita menn að gengur SigmErnir2ekki upp hjá Sigmundi Erni.

 

Hið rétta er að heildaraflaverðmæti íslenska skipaflotans 2021 var 148 milljarðar króna (1,5 x 1011) sem töluvert lægri en talan sem ritstjórinn vinnur út frá. Að auki vita allir skynsamir menn að heildartekjur er ekki það sama og hagnaður. Af aflaverðmæti eru greidd laun, olía, veiðarfæri og annar kostnaður.

Þegar ritstjóri þessa víðlesna blað leyfir sér að setja fram slíka vitleysu má alveg spyrja sig hvernig venjulegt fólk eigi að geta  fótað sig í umræðu um sjávarútveginn.

 


Stærðir sjávarútvegsfyrirtækja og matvörumarkaðar 2020

Áhugavert er að skoða veltu matvörumarkaða og úthlutun veiðiheimilda til sjávarútvegsfyrirtækja þar sem umræða um samþjöppun í sjávarútvegi er talin vera áhyggjuefni. Minna hefur farið umræðu um stærðir fyrirtækja á matvörumarkaði.

Vel að merkja þá fara allar vörur sjávarútvegsfyrirtækja á erlendan markað en matvörumarkaðurinn hefur nær allar sínar tekjur af heimilum landsins. 

matvörumarkaður 2020

Græni reiturinn eru aðrir samkeppnisaðilar og er sláandi hvað sá græni er lítill í matvörunni þar sem þeir litlu er að slást við þá sex stóru sem ráða markaðnum.

sjávarútvegur 2020

Græni reiturinn hér er mun stærri. Aflaúthlutun til sex stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi er hlutfallslega minni en bara hlutdeild Haga á matvörumarkaði.

Er óhætt að segja að það sé töluvert minni samþjöppun í sjávarútvegi en á matvörumarkaði.


Hagfræði Bláa lónsins og verbúð fortíðarinnar

Lengi vel gat hver sem er farið í Bláa lónið eða hvað það var sem affallsvatnið frá virkjuninni  kallaðist áður en slyngir menn fóru að markaðssetja fyrirbærið. Þetta voru hálfgerðar svaðilfarir, engin búningsaðstaða, ekkert hreinlæti og ekkert eftirlit. Enda var það svo að þeir sem lögðu í að fara í „Bláa lónið” á þessum tíma voru heldur lítt skipulagðir og fóru þangað í hita augnabliksins. Allir voru sammála um að þetta væri fyrirkomulag sem engum hentaði og enginn hefði ábata af. Því var það svo að glöggir menn og ráðagóðir hófu að skipuleggja aðstöðuna með það fyrir augum að auka á upplifun gesta, skapa snyrtilega og örugga umgjörð um reksturinn og hafa af þessu nokkurn ábata. Í raun gat engin séð fyrir að upp úr þessu myndi rísa rekstur eins og er í Bláa lóninu í dag en óhætt er að segja að þar sé finna eitthvert best heppnaða framtak í íslenskri nýsköpun. 

En vissulega gátu allir farið í lónið án nokkurs endurgjalds á sínum tíma og sannarlega er það ekki ókeypis að fara í Bláa lónið í dag. Þessi „auðlind“ skapar mikil verðmæti í dag fyrir eigendur, starfsmenn og ekki síst þjóðarbúið. Höfum hugfast, að í raun og veru hefði hver sem er getað farið af stað með rekstur þarna á sínum tíma þar sem enginn hafði áhuga á honum fyrr en frumkvöðlarnir fóru af stað. En að reka fyrirtæki utan um affallsvatn þarna í hrauninu leit nú ekki beinlínis út fyrir að geta orðið arðsamt á þeim tíma. 

En hverfum til okkar tíma. Í dag vildu líklega allir eiga hlut í Bláa lóninu og nú er svo komið að ýmsir af þeim sem komu að rekstrinum hafa „selt sig út úr honum“ án þess að séð verði að nokkur tímann hafi verið greitt fyrir auðlindina. Já, „auðlindina“ segi ég, í dag líta flestir svo á að þarna sé um auðlind að ræða en það var sannarlega ekki svo í upphafi. Einn þeirra sem hafa selt sig út úr Bláa lóns-auðlindinni er Helgi Magnússon sem í dag er umsvifamikill fjárfestir. Hann á meðal annars Fréttablaðið og tengda miðla sem fjalla mikið um aðra auðlind, sjávarútvegsauðlindina, sem Helgi telur greinilega að hafi verið afhent án endurgjalds og ekki sé greitt fyrir hana sanngjarnt afgjald. 

Fyrir daga kvótakerfisins voru of margir að veiða „pollinn” umhverfis landið.  Sorgir sameignar kallast það þegar slegist er sameiginlega auðlind sem engin stjórn er á. Of margir voru við veiðar og alltof mikið var tekið úr fiskistofnunum. Með kvótanum var dregið verulega úr því sem menn máttu veiða og við það versnaði afkoman. Bátum fækkaði og fyrirtæki lögðust af.  Þessi tími var sársaukafullur og erfiður bæði fyrir þá sem fóru á hausinn og hjá þeim sem þraukuðu.  Þeir sem bölvuðu kvótakerfinu þá voru í útgerð en almenningur í landinu vildi lítið af útgerð vita. Það var enginn að afhenda einum eða öðrum, eitt né neitt.  Það var verið að takmarka aðganginn.  Áhyggjur fólks úti á landi voru hvort það fengi eitthvað fyrir húsin sín ef það þurfti að flytja úr þorpinu. Verbúðarfólkið hafði litlar áhyggjur, brennivínsflöskurnar voru senda í póstkröfu um allt land. 

Er saga þessara tveggja auðlinda svo ólík? Allir gátu nýtt þær og arðsemi rekstrarins var í lágmarki. Þeir sem komu að umbreytingu hans sáu hins vegar tækifæri og þróuðu og bættu reksturinn og gerðu hann að því sem hann er í dag. En það var ekki beinlínis séð fyrir á þeim tíma sem Ísland var ein stór verstöð og ekki eru allar ferðir til fjár.

 


200 þúsund tonn meir?

Allt frá árinu 1901 höfum við Íslendingar barist fyrir yfirráðum yfir fiskimiðum sínum. Það var ekki fyrr en með viðurkenningu Breta á 200 mílna lögsögunni 1. júní 1976  að við náðum  fullum yfirráðum yfir þeim. Á sama tíma og barist var fyrir útfærslunni í 200 mílur var farið að kalla eftir vísindalegu mati  fiskifræðinga á ástand fiskistofna hér við land. Aflamarkskerfið var tekið upp árið 1984 með úthlutun á einstök skip en Hluti flotans var í sóknarmarki frá 1985-1990. Með lögum nr. 38 frá 1990 og frjálsa framsalinu 1994 var það kerfi að sem nú er við líði fest í sessi.

Frá því að frjálsa framsalið  var tekið upp 1994 og  útgerðin varð að standa á eigin fótum  fórum við að gera okkur grein fyrir mikilvægi þess að vernda  fiskistofna og veiða á ábyrgan hátt þannig að við afrakstur stofna sé sjálfbær til framtíðar.

Samspil stofna og umhverfisþátta hefur verið mér hugleikið innan fiskifræðinnar og hef nýlokið vinnu við úttekt sem skoðaði stofnmat í karfa og grálúðu. Við rannsóknir mínar  tók ég saman og bar saman þróun veiða helstu bolfisktegunda hér við land eftir seinni heimstyrjöld og til dagsins í dag. Með því að taka út hitastigsmælingar í hafinu úr skýrslum Hafrannsóknarstofnunar svo og töluleg gögn þaðan getum við borið saman afla og hita frá 1945 til 2020. Þar sést að meðan veiði er óheft þá sveiflast hún með líkum hætti og hitinn í sjónum ef horft er á myndirnar sitt á hvað. En eftir 1994 er veiðum stýrt á ábyrgan hátt og með varúðarsjónarmiðum.  Lítil sveifla er í lönduðum afla en hann er um leið að aukast hægt og bítandi. Á hinn bóginn er hitinn núna orðin svipaður hitanum þegar  þegar mest var veitt áratug eftir stríð. Núna veiðum við af þessum helstu tegundum bolfisks 457 þúsund tonn en 1960  veiddum við nærri 700 þúsund tonn. (sjá mynd 1 &2). Mynd 1 sýnir 75 ára þróun en á 3 árum (1100 dögum)  nær þorskur nærri 4 kg stærð frá hrogni ef næg er fæðan.

Varúðarsjónarmið ráða miklu við ákvörðun um aflamark þar sem rannsóknir á nytjastofnum okkar eru ekki nægjanlega miklar. Í skýrslu sem unnin var að beiðni sjávarútvegsráherra („Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi “frá því í maí 2021) segir á bls. 3. „Hafrannsóknarstofnun hefur ekki getað metið stærð sumra stofna og í þeim tilvikum getur stofnunin ekki veitt ráðgjöf sem miðar að hámarksafrakstri. Þess í stað byggir sú ráðgjöf á ákveðinni varúðarnálgun sem á að tryggja að ráðlagður afli sé sjálfbær.“

Í framhaldi af þessu hljótum við að spyrja okkur hvort  ekki sé ráð að við förum að kanna betur ástand okkar fiskistofna og gætum að hvort við eigum möguleika á að veiða meir úr þeim. Þá getum við treyst á raunverulega þekkingu við veiðistýringu en erum ekki fangar varúðarsjónamiða sem geta haft af okkur umtalsverð verðmæti.

veiðar á helstu bolfisktegundum

Mynd 1:Veiðar allra þjóða á helstu bolfisktegundum frá árinu 1945. Gögn frá Hafrannsóknarstofnun

hiti við Siglunes

Mynd 2: Hiti við Ísland frá 1945 til 2020 út frá Siglunesi. Breiðari línan er hlaupandi meðaltal sl 5 ára frá Hafogvatn.is

 


Hinir óseðjandi!

Vinur minn Anfinn í tröllahöndum

Síðasta vetrardag, sá éAnfinn Olseng minn gamla vin Anfinn Olsen birtast í sjónvarpinu hér heima. Eins og hann kom fyrir í sjónvarpinu þekki ég ekki minn mann. Hann var frekar utan við sig og tafsaði í svörum, eitthvað sem er ólíkt honum. Sá Anfinn sem ég þekki er skarpur og snar en þegir ef hann hefur ekkert til málanna að leggja. Þar mættu margir af honum læra. Að fyrra bragði trúir hann því besta um fólk og telur alla vinna af heilindum, en ef menn sýna annað verður hann reiður. Þegar ég kvaddi Anfinn og Elísabetu konu hans í Tromsö árið 1986 voru þau með seiðaeldi á prjónunum í Færeyjum. Síðar æxluðust mál þannig að þau tóku við útgerð föður Anfinns. Hafa þau byggt upp mikið og glæsilegt útgerðarfyrirtæki í Færeyjum af miklum dugnaði og nýtt sér tengingar hér á landi við menn og fyrirtæki sem og annars staðar. Elísabet var við nám hér á landi áður en hún fór til Tromsö. Hafa þau ræktað vel sinn vinskap við Íslendinga. Þau hjón, Elísabet og Anfinn, eru fyrirmyndar fólk sem geisla af góðmennsku og lífsgleði.

Eitt sinn man ég eftir að hafa sagt þeim hjónum frá því að Íslendingar gerðu grín að Færeyingum og kölluðu þá tafsara. „Thad er allt í lagi sagði Færeyingurinn, við köllum ykkur jáara. En svo segið þið flugvél og það er í fínu lagi en þið segið líka stígvél, en hvar er vélin?“

Samherjaleikurinn berst til Færeyja

Síðasta vetrardag sýndi Ríkisútvarpið færeyskan þátt sem gefið var nafnið Hinir óseðjandi. Hverjir voru óseðjandi og um hvað fjallaði þátturinn er erfitt að segja. Markmiðið var klárt, að láta áhorfendur sitja uppi með þá tilfinningu að eitthvað verulega spillt og rotið sé í rekstri Samherja og Framherja í Færeyjum. Kunnulegt stef þegar Ríkisútvarpið fjallar um sjávarútveg.

Í þessum þætti sáum við mörg myndbrot klippt fram og til baka úr myndasafni Kveiks með undirspili eins og um glæpaþátt væri að ræða. Þarna voru Kveiksmenn, sérskipaðir rannsakendur, að lesa í færslur reikninga sem þeir komumst yfir en vissu greinilega ekki mikið um. Enda höfðu þeir lítið haft fyrir því að kynna sér rekstur fyrirtækjanna eða hvað menn væru að gera þar. Þeir ætluðu sér að finna eitthvað allt annað. 

Það var einfaldlega verið að leita að lögbroti enda virðast þeir sannfærðir um að útgerðarmenn ástundi glæpi víða um heim eftir að í hendurnar á þeim barst mikið af gögnum sem þeir virðist lítið skilja í. 

Samskipti byggð á blekkingum

Þótti mér þetta allt hið undarlegasta og hafði því samband við Anfinn og spurði hann útí málin. Anfinn sagði mér frá hvernig KVF (Færeyska Kringkastið) blekkti hann og setti upp viðtal sem var ekkert annað en fyrirsát. Fyrir viðtalið, sem hann hafði samþykkt, hafði hann fengið spurningar sem hann svaraði skilmerkilega. En eftir að „viðtalinu“ var lokið og búið var taka af honum hljóðneman byrjaði óformlegt samtal og myndavélar áfram í gangi sem hann vissi ekkert um. Þetta eru orðin  kunnugleg vinnubrögð fréttamanna hér á landi og ekki nema von að forsvarsmenn fyrirtækja séu farnir að neita að mæta í viðtöl hjá sumum miðlum. Anfinn segist ekki vilja tala við menn sem haga sér svona en hann sendi frá sér greinargerð eftir að þættirnir voru sýndir í færeyska sjónvarpinu. Greinargerðina er hægt að finna  á vef kvf.fo inní grein sem heitir „Anfinn Olsen vísir ákærum aftur”.

En hvar er vélin?

Í bréfi sínu útskýrir Anfinn þau viðskipti sem fréttamenn eru nú að gera tortryggilegt og væri ekki vanþörf á því að þessi greinargerð birtist í íslenskum fjölmiðlum svo að landsmenn geti séð hið rétta í málinu.  

Það er öllum ljóst að Anfinn og Elísabet eiga 67% Framherja og að auki eiga þau 27% hlut í félaginu Framinvest sem á 33% hlutinn í Framherja. Í þættinum voru sýndar 16 færslur til og frá Framherja og Framinvest sem allar voru vegna kaupa og sölu á skipum árið 2010, viðskipti og samningar sem fréttamennirnir  vissu ekkert um eða kusu að segja ekki frá. Í bréfi sínu rekur Anfinn að skipin voru með erlent ríkisfang en urðu að vera skráð í Færeyjum. Skipin, sem voru að hluta eða að öllu leyti í eigu fyrirtækja Samherja, voru keypt og síðar seld aftur út til að ná markrílkvóta Færeyja sem hafði verið aukinn úr 85 í 150 þúsund tonn árið 2011. Höfðu Færeyingar hvorki skip né vinnslur til að taka á móti því magni á svo skömmum tíma ef undan er skilið ein vinnsla. Skip varð að vera eign útgerðar til að geta fengið makrílkvóta samkvæmt lögum þar einsog hér og þess vegna var það leyst með kaupum. Að auki var makrílstríð í gangi með löndunarbanni á Færeyinga í erlendum höfnum.

Allt þetta útskýrir Anfinn í bréfi sem hann sendir til KVF og er á vef þeirra. Tengil á þetta bréf sendi ég á Fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir útsendingu þáttarins en þeir sáu ekki ástæðu til að nefna það. Spurðu bara hvers vegna hann vildi ekki koma í viðtal. Svarið er að hann vill ekki tala við menn sem vilja ekki hlusta eða menn sem beita blekkingum. Vill það einhver?

Engin ástæða til rannsóknar í Færeyjum

Margt í þessu máli er erfitt að skilja. Hvers vegna er svona þáttargerð haldið úti þegar vitað er að engin rannsókn er í gangi í Færeyjum eða ástæða til rannsóknar? Allir reikningar, allra fyrirtækja sem þarna um ræðir eru vottaðir af endurskoðendum og yfirfarnir af yfirvöldum og allir reikningar afstemmdir. Einnig hafa allir reikningar Samherja verið rannsakaðir hér heima af Seðlabanka, Sérstökum saksóknara og Skattinum. Því til viðbótar skoðaði Seðlabankinn alla bankareikninga og bókhald kýpversku félaganna, svo og skatturinn. Skatturinn felldi það niður og þann 30. mars 2016 felldi Seðlabankinn líka niður málið vegna kýpversku félaganna. Þetta hefur allt verið skoðað í þaula og að sjálfsögðu yfirfarið af endurskoðendum og ekkert saknæmt komið fram. Ef eitthvað saknæmt hefði þar komið fram hefðu íslensk yfirvöld örugglega látið vini okkar í Færeyjum vita. 

Við verðum að viðurkenna að það er engin vél í stígvélum. Við átum upp vitleysuna frá Dönum þegar við fyrst fengum „stövler”. Eins virðast íslenskir og færeyskir blaðamenn helst telja sér það til tekna að ræða hvor við annan um meint misferli og glæpi, án þess að hafa neitt í höndunum sem getur kallast sönnun eða staðfesting. Og þannig er verið að níðast á vini mínum Anfinn sem er nú í tröllahöndum.

 


Arðrán Evrópusambandsins

Grein birt í Morgunblaðinu 12 feb 2021

ESB sendimenn hika ekki við að arðræna fátækar þjóðir eða múta ráðamönnum.

Nýverið bárust fréttir af kaupum Evrópusambandsins á veiðiheimildum við Grænland. Slær vefritið Kjarninn því upp að, „ESB borg[i] mun meira fyrir fiskveiðar heldur en íslenskar útgerðir“ og reiknar einsog enginn sé morgundagurinn út þorskígildi og verð á kíló. Þetta er villandi samanburður og því vill ég fá að tiltaka nokkra þætti.  

ESB er ekki útgerð eða fjölskyldufyrirtæki úti á land og gerir ekki út báta, hvorki í Evrópu né við Grænland. ESB borgar fyrir veiðiheimildir við Grænland úr sameiginlegum sjóðum ríkjasambands sem um leið styrkir og niðurgreiðir útgerðir í sínum löndum og styður þannig við óhagkvæmar útgerðir. ESB kaupir veiðiheimildir fyrir tugi miljarða króna á hverju ári, allt frá Grænlandi í norðri til Falklandseyja í suðri til handa útgerðum sinna landa og til að geta boðið „evrópskan“ fisk í sínum löndum. Túristar sem telja sig vera að snæða rækjur á suðurströnd Spánar er líklega borða fisk veiddan við Vestur-Afríku af spænskum togara eða frá Grænlandi. Á spænsku skipunum sem veiða við Angóla eru yfirmennirnir spænskir en sjómennirnir innfæddir. Þeir fá  greidd laun eftir því hvort eitthvað fæst uppí kostnað við veiðarnar og ef vel veiðist og menn eru heppnir geta þeir fengið hátt í 2000 kr. fyrir daginn. Meira er það ekki.

ESB nýtir allar leiðir til að ná í fisk og að komast gjarnan yfir veiðiheimildir með gilliboðum um þróunaraðstoð og styrki til viðkomandi ríkisstjórna eða hreinlega múta ráðamönnum eða ráðandi öflum. Hika sendimenn ESB ekki við að arðræna auðlindir fátækra þjóða og henda fyrir borð því sem lítið fæst fyrir. Þannig kaupa þeir veiðiheimildir í Senegal, Angóla, Máritaníu, Fílabeinsströndinni og Marokkó, svo einhver lönd séu nefnd. Skráning á afla er oft og iðulega fölsuð og eftirlit með lönduðum afla verulega ábótavant. Fara þeir sjaldan eftir vísindalegri ráðgjöf um hámarksafla og ganga illa um auðlindir með skipulögðu brottkasti. Meira segja kaupir ESB veiðiheimildir við Sómalíu þar sem stjórnleysi ríkir og heimamenn einna þekktastir fyrir sjóræningjastarfsemi sína. 

Íslenskar útgerðir geta ekki keppt við fjölþjóðasamsteypur eða ríki sem sniðganga reglur, þvert á móti þurfa þær að verjast þeim og keppa við undirboð þeirra, tæknilegar viðskiptahindranir og gæðakröfur sem meðal annars ESB setur á okkur. Er ég nokkuð viss um að flest skip sem Spánverjar, Frakkar og Grikkir nota við veiðarnar í Afríku gætu ekki komist inní íslenska skipaskrána eða fengið veiðileyfi hjá Fiskistofu vegna brota á öryggisreglum eða gæðaeftirliti og aldrei kæmust íslenskar útgerðir upp með að greiða þau laun sem þeir bjóða sínum sjómönnum. 

Það hefur ekki reynst þjóðum vel að semja við ESB um veiðiheimildir eða að hleypa þeim inní sína landhelgi, en sumar þjóðir gera það þegar þeir sjá peningana og gilliboð ESB. Víða við strendur Vestur-Afríku ganga þeir svo nærri fiskistofnum að strandveiðimenn eru hættir að fá í soðið og svelta á meðan yfirvöld fitna á styrkjum og mútum frá ESB. Að bera saman fiskveiðistjórnun ESB við auðlindagjöld íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er hvorki rétt né sanngjarnt. Þvert á móti er  nöturlegt að fylgjast með hvernig ESB gengur um auðlindir annarra ríkja. Það er ekki til eftirbreytni.

 


Litlu sjávarútvegsfyrirtækin og íslensku risarnir

birt @visir.is/skoðun 15. maí 2020 17:00

Því er oft haldið fram að fyrirtæki í sjávarútvegi séu of stór og kvótinn sé á fárra manna höndum. Samhliða eru nefnd til sögunnar nokkur stærstu fyrirtækin og stjórnendur þeirra og gjarnan sagt: Þetta gengur ekki! En er þetta rétt, hver er hin raunverulega stærð þeirra og hvernig er samanburður við annan fyrirtækjarekstur hér á landi eða erlendis?

Ef við skoðum til að mynda neytendamarkað á Íslandi þá sést að þau fyrirtæki sem þjónusta einstaklinga og heimili hér á landi eru helst dagvöruverslanir, orkuveitur, tryggingafélög, fjölmiðlafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, olíusölur og bankar. Sjálfsagt er hér einhverjum gleymt en öll þessi félög hafa mikil áhrif á heimilisbókhald landsmanna og því forvitnilegt að skoða hverjir ráða þar för. Gnæfa sjávarútvegsfyrirtækin yfir þessi félög í stærð og umfangi? Nei, síður en svo. Skoðum það nánar.

Fyrirtæki heimilanna

Að sölu dagvöru standa að mestu tveir til þrír aðilar. Ef bara er tiltekin matvara sem er í lægra VSK þrepi þá er veltan þar nærri 160 milljarðar. Einungis þrír stórir (og 6 litlir aðilar) sjá um alla mjólk og kjötvöru, samtals með veltu uppá 60 milljarða.[1] Raforkusalar eru örfáir og aðeins einn dreifingaraðili. Í tryggingageiranum ráða þrjú félög yfir stærstum hluta markaðsins og þeir sem selja eldsneyti eru þrír stórir og tveir litlir. Þeir sem deila til okkar sjónvarpi og síma eru aðeins þrír og 2 lang stærstir. Viðskiptabankarnir eru þrír og þeir ákveða vaxtastigið og þjónustugjöldin. Út frá þessu má leiða líkur að því að þau fyrirtæki sem ákveða í raun afkomu heimilanna eru hugsanlega á milli 15 og 20. Þetta er ekki vísindaleg greining en sett fram til að varpa ljósi samanburðinn við sjávarútveginn. Til samanburðar er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi, Brim hf., með svipaða veltu af innlendri starfsemi og Costco í Garðabæ (bensín, matvara og dægurvara).[2] Fjögur olíufélög eru með meiri veltu en öll útgerð í landinu og hagnaður þeirra svipaður árið 2018.[3] [4] Þá er ekki dregið frá auðlindagjaldið sem leggst á útgerðina.

Margir hafa horn í síðu sjávarútvegsins og býsnast yfir samþjöppun og stærð en eru á sama tíma ekki mikið að velta fyrir sér stærð og umfangi þeirra fyrirtækja sem standa að sölu á dagvöru, bensíni, tryggingum, fjarskiptum, orku eða fjármálaþjónustu. Þó eru það þeir liðir sem mestu máli skipta fyrir heimilin í landinu.

Hömlur skaða sjávarútvegsfyrirtækin

Aflahlutdeild er úthlutað á 466 skip hér við land sem landa á 66 hafnir hringinn í kringum landið. 23 félög eiga 75% kvótans og 50 félög sem eiga 89% kvótans (Fiskistofa, 2019) [9].

Lætur nærri að um helmingur kvótans sé í eigu tíu félaga. Svona er lengi er hægt að telja en ekkert félag á meira en 10% af kvótanum. Þegar þetta er skoðað sést að sjávarútvegurinn stendur síður en svo fyrir meiri samþjöppun en önnur svið viðskiptalífsins. Fyrirtæki í sjávarútvegi hér á landi eru í harðri samkeppni á mörkuðum erlendis og þá oft á tíðum við miklu stærri fyrirtæki. Fyrirtæki sem þjónusta tæknihluta vinnslunnar eru bara tvö hér á landi og þau gætu hugsanlega staðið betur að samkeppni á erlendum vettvangi sameinuð. Sama á við um sjávarútveginn. Samkeppnin er á erlendum mörkuðum og þangað eigum að horfa. Ef horft er til stærðar erlendra sjávarútvegsfyrirtækja þá eru 10 stærstu fyrirtækin í heiminum með meðaltalsveltu uppá 500 milljarða. Við þau fyrirtæki eru íslensku fyrirtækin að keppa.

Með því að leita á erlenda markaði getum við með stærri fyrirtækjum sett mark okkar á alþjóðlegan sjávarútveg. Þar vefst fyrir mönnum að ná tökum á auðlindastýringu og rekstri fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir. Við getum því sem hægast leiðbeint öðrum þjóðum og veitt þeim aðstoð byggða á þeirri forskrift sem við höfum byggt upp með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Það að opinberar reglur takmarki stærð fyrirtækja hér á landi, til þess eins að einstaka aðilar græði ekki of mikið, er fásinna. Þeim sem gengur vel á að styrkja til að eflast og dafna í stað þess að setja á þá hömlur.

Í lögum um stjórn fiskveiða segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar [...] Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Mörgum sem fylgst hafa með sjávarútveginum og vilja efla hann finnst eins og við séum föst í fyrstu setningunni og við sem þjóð vitum ekki hvert stefna eigi. Við höfum hins vegar náð þeim markmiðunum sem koma fram í næstu setningu og getum gert enn betur. Við getum til dæmis aukið þekkingu í landinu umtalsvert með því að deila henni með öðrum. Um allt land er reynslumikið fólk sem veit hvernig á að reka sjávarútvegsfyrirtæki en er fast innan þess ramma sem við höfum búið okkur til. Horfum út fyrir kassann, ...hve skal lengi dorga dáðlaus upp við sand, orti Einar Benediktsson. Fleytan er of smá sá guli er utar, á líka við.

Í stað þess að agnúast út í sjávarútveginn eigum við að standa saman að því að gera enn betur. Sú sátt sem hefur verið boðuð og meðfylgjandi umræðupólitík leggur lítið til málanna en eykur frekar á öfund og úlfúð. Hættum því og leitum saman leiða að því að gera enn betur. Förum í víking með okkar fiskveiðistjórnunarkerfi og okkar reynslu af því að reka sjávarútveg með hagkvæmum hætti. Allir þeir sem hingað til hafa viljað breyta einhverju gefst tækifæri núna til að breyta heiminum. Hver er með?

Heimildir

[1] https://www.si.is/framleidsla-og-matvaeli/smk/

[2] https://www.vb.is/frettir/costco-med-10-markadshlutdeild/147264/?q=Bens%C3%ADn

[3] https://www.vb.is/frettir/gerjun-i-oliugeiranum/151742/

[4] http://hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2019/1cdb302d-e138-4dac-a4d1-140a31842f81.pdf

[5] Velta fyrirtækja skv. Samkeppnisstofnun 2017

[6] Velta tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna skv Fiskifréttum

[7] https://www.samherji.is/is/frettir/farsaell-rekstur-samherja-2017

[8] https://www.brim.is/library/Sidumyndir---skjol/Financial-Information/Fjarmal/arsskyrslur/%c3%81rsreikningur%20Brims%202019.pdf

[9]fiskistofa.is yfirlit úthlutunar 2019/2020


Fákeppni á matvörumarkaði, samkeppni í sjávarútvegi

birt @visir.is/skoðun 23. september 2020 16:30

Út er komin skýrsla sem ber heitið: „Um markaði Brims og tengdra félaga, samþjöppun og virkni þeirra“. Skýrslan er unnin af fjármálafyrirtækinu Arev og kannar samkeppni með aflaheimildir [1] í sjávarútvegi og ber saman við annan atvinnurekstur hér á landi. Í skýrslunni er einnig skoðuð samkeppni á matvörumarkaði og í bankastarfssemi og almennt þá miklu samþjöppun sem er að finna í íslensku viðskiptalífi. Niðurstöðurnar sýna að samkeppni um aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja er mikill, virkni aðfangamarkaða sömuleiðis og miklu mun meiri en í öðrum greinum atvinnulífsins hér á landi. Skýrsluhöfundar nota HHI mælikvarðann sem er notaður af Samkeppniseftirlitinu hérlendis, sem og erlendis, og reiknar út fjölbreytileika tiltekins safns, sambærilegt og gert er í vísindagreiningu með aðra stuðla innan vistfræði, eðlisfræði og stjórnmálafræði.

Í maí skrifaði ég grein um litlu sjávarútvegsfyrirtækin og risana á íslenskum markaði. Þá vakti ég athygli á því að þeir sem hvað mest áhrif hafa á afkomu heimilanna eru afskiptir í umræðunni og undraðist áhuga sumra fjölmiðla og stjórnmálaflokka á nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Mikið er talað um samþjöppun og fákeppni í sjávarútvegi en minna um þá starfsemi stórfyrirtækjanna sem varða heimilin í landinu mestu. Hvað veldur því? Þessi skýrsla sýnir svo óyggjandi sé að fákeppni ríkir á dagvörumarkaði en ekki í sjávarútvegi. Reiknuð voru samþjöppunarhlutföll fyrirtækja eftir sameiningar og þar kemur fram að samþjöppun er 8 sinnum meiri hjá Högum eftir samruna en er hjá Brim hf. Það er áhugavert að sjá að Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna N1 og Festi, Haga og Olís í apríl á síðasta ári en hefur rannsakað samruna hjá Brim síðan í maí 2018 án niðurstöðu. Er það eðlilegt? Vel að merkja, þá fara afurðir sjávarútvegsfyrirtækja nær allar á erlendan markað þannig að félögin eru ekki að keppa á íslenskum neytendamarkaði en það ætti að vera aðalhlutverk samkeppnisyfirvalda að tryggja stöðu íslenskra neytenda.

Fyrir þá sem til þekkja í sjávarútvegi þá kemur niðurstaða skýrslunnar ekki á óvart enda vitað að samkeppni þar er mikil. Það er grimm samkeppni milli fyrirtækja í sjávarútvegi enda fyrirtækin rekin á ólíkan hátt þegar kemur að veiðum, vinnslu, sölu og öðru því er tengist úrvinnslu afla. Það ríkir mikil samkeppni um aflaheimildir, góð skip, veiði- og, vinnslutækni og fært starfsfólk. Útávið, á erlendum mörkuðum, reyna sjávarútvegsfyrirtækin að standa saman þegar hagur lands og þjóðar er í húfi. Sumir virðast telja sig hafa pólitískan hag af því að halda því að fólki að fáir aðilar stjórni öllu í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur leitt til þess að kallað er eftir rannsóknum á rekstri þessara fyrirtækja með tortryggni að leiðarljósi. Beita menn óspart eftirlitsstofnunum ríkisins, svo og fréttastofu ríkisins í þau verkefni. Svo þegar ekkert misjafnt finnst þá telja menn að ekki hafi verið rannsakað nægilega vel. Það er einsog þeir segja í heilbrigðiskerfinu: að það sé ekki til heilbrigður einstaklingur, það er bara til einstaklingur sem ekki er búið að rannsaka nóg!

En staðreyndir tala sínu máli. Samkeppni í sjávarútvegi er mörgum sinnum meiri en innan markaðar með matvöru og bankastarfsemi samkvæmt niðurstöðu þessarar skýrslu. Ekki voru teknar fyrir aðrar atvinnugreinar en eins og ég benti á í áðurnefndri grein minni þá ríkir fákeppni víðar en tiltekið er í skýrslunni. Nefndi ég orkusölu, sjónvarpsaðgang, tryggingarekstur, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og bensínsölu. Fleira hefði verið hægt að telja til. Væri full þörf á að það væri tekið saman og gefið út af Samkeppnisstofnun sambærilegur vegvísir fyrir almenning um hvar samkeppni er minnst og hvar mest samkeppni ríkir og birta á heimasíðu sinnu. Þessi gögn ættu heima þar alveg eins og Fiskistofa birtir allar tilfærslur á aflaheimildum báta og úthlutanir á kvóta hver báts. Það væri kannski ekki úr vegi að Verðlagsstofa tæki að sér að birta til dæmis innflutningsverð á olíu og bensíni og hvaða magn væri flutt inn hverju sinni, rétt eins og allar landanir og verð á fiski er birt hverju sinni á vef Fiskistofu og hjá Verðlagsstofu skiptaverðs.

Nýverið hefur verið sýnt framá að falsfréttir á netmiðlum fá sex sinnum meiri athygli en sannar fréttir. Samkvæmt þessu ættu sex sinnum fleiri að lesa fréttir um fákeppni í sjávarútvegi en þá staðreynd að þau eru í bullandi samkeppni. En við verðum að trúa því að sannleikurinn sigri að lokum.

[1] "Samkeppni virk og lítil samþjöppun í sjávarútvegi - Brim | Frétt." 21 Sep. 2020, https://www.brim.is/frettir/frett/2020/09/21/Samkeppni-virk-og-litil-samthjoppun-i-sjavarutvegi/?NavigationYear=2020&NavigationMonth=09. Sótt 22 Sept. 2020.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband